sun 19.okt 2025 10:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|

UTAN VALLAR: Hverjar yrðu fjárhagslegar afleiðingar af falli KR?
KR er komið í krappan dans við falldrauginn í Bestu deild karla. Hvaða fjárhagslegu afleiðingar myndi það hafa fyrir KR ef félagið fellur niður um deild?
Greinin var einnig birt á utanvallar.is
Tekjumunurinn á Bestu deild karla og Lengjudeild karla
Tekjumunurinn á Bestu deild karla og Lengjudeildinni er rúmlega 57 milljónir króna. Hér er um að ræða annars vegar greiðslur sem félög fá frá Íslenskum Toppfótbolta vegna sjónvarps- og tölfræðiréttinda, eitthvað í kringum 21 milljón króna. Hins vegar er um að ræða samstöðubætur frá UEFA til félaga sem komast ekki inn í félagsliðakeppnir UEFA, en þær greiðslur eru orðnar hátt í 36 milljónir króna. Til samanburðar má nefna að rekstrartekjur KR voru í fyrra 384,5 milljónir króna. Þar að auki má velta fyrir sér hvernig tekjur af til dæmis miðasölu og augýsingum breytast, en það er þó erfiðara að lesa í það.
Launakostnaður
Launakostnaður KR hefur farið vaxandi síðustu árin og hlutfall þess af rekstrartekjum var 65,5% árið 2024. Nær allur launakostnaðurinn eru verktakagreiðslur en einungis 1 stöðugildi er hjá knattspyrnudeild KR sem er þá væntanlega framkvæmdastjóri knattspyrnudeildarinnar.
Skuldastaða KR
Skuldir KR hafa hækkað síðustu árin og stóðu í tæpum 150 milljónum kr. á síðasta ári. Stærsti hluti þess eru viðskiptaskuldir og víkjandi lán. Þá var hlutfall skulda af eignum 150,8% í árslok 2024 en það lækkaði þó á milli ára. Knattspyrnudeild KR tók óverðtryggt langtímalán á síðasta ári en árlegar afborganir af því eru tæplega 1,1 milljón króna. Þar að auki er KR með yfirdrátt upp á rúmlega 21 milljón króna en hann hækkaði um 3,7 milljónir króna á milli ára. Skuldastaða knattspyrnudeildarinnar er því ekki í frábærum málum.
Fjárhagsstaðan
Eigið fé KR var neikvætt upp á tæplega 50,5 milljónir króna á síðasta ári en mikill taprekstur hefur verið á knattspyrnudeildinni síðustu árin. Knattspyrnudeildin var þó rekin með hagnaði upp á 11,7 milljónir króna í fyrra og handbært fé hækkaði um hátt í 16 milljónir króna og stóð í 19,4 milljónum króna í árslok 2024. Á sama tíma jukust skuldir um 28 milljónir króna en skuldahlutfallið minnkaði þó á milli ára eins og komið hefur fram.
Verður KR gjaldþrota?
KR hefur mátt muna fífil sinn fegurri. Ef félagið fellur niður úr Bestu deild karla kemur það ekki til með að gera fjárhagsstöðuna betri en mögulega mun það hreyfa við velunnurum félagsins. Í ljósi fjárhagsstöðu knattspyrnudeildarinnar hljóta velefnaðir Vesturbæingar að hlaupa undir bagga og bæta upp tekjumissinn sem félagið verður af ef það fellur niður úr Bestu deild karla.