Liverpool og Real Madrid eru í reglulegu sambandi við Kylian Mbappe, leikmann Paris Saint-Germain, en það er L'Equipe sem greinir frá þessu.
Mbappe er ein skærasta stjarnan í fótboltanum í dag en hann hefur komið að 142 mörkum hjá Paris Saint-Germain í aðeins 125 leikjum og hjálpaði meðal annars liðinu að komast í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á síðasta tímabili.
Hann á aðeins tvö ár eftir af samningnum hjá PSG og ekki er útlit fyrir að hann framlengi við félagið.
Samkvæmt L'Equipe þá hafa Liverpool og Real Madrid verið í reglulegu sambandi við Mbappe og hans teymi. Það þyrfti gríðarlega hátt tilboð til að PSG myndi íhuga að selja hann.
Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, hefur áður talað um að það væri erfitt að næla í Mbappe en samkvæmt frönsku miðlunum hafði hann þó samband við föður leikmannsins í maí til að athuga stöðuna.
Mbappe hefur áður talað um árangur Liverpool og heillast hann að félaginu en draumur hans er einnig að spila með Madrídingum og verður því fróðlegt að sjá hvað franska stórstjarnan gerir.
Liverpool gerði samning við bandaríska íþróttavöruframleiðandann Nike fyrr á árinu og gæti framleiðandinn hjálpað enska félaginu að fjárfesta í leikmanninum ef það stendur til boða að fá hann.
Athugasemdir