Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
banner
   sun 22. mars 2020 18:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hver á eiginlega að vera aðalmarkvörður Englands?
Pickford var aðalmarkvörður Englands á HM 2018.
Pickford var aðalmarkvörður Englands á HM 2018.
Mynd: FIFA
Nick Pope.
Nick Pope.
Mynd: Getty Images
Dean Henderson á enn eftir að spila sinn fyrsta A-landsleik.
Dean Henderson á enn eftir að spila sinn fyrsta A-landsleik.
Mynd: Getty Images
Evrópumótið sem átti að fara fram í sumar hefur verið fært um eitt ár vegna kórónuveirufaraldursins. Mikið hefur verið rætt um markvarðarstöðu enska landsliðsins, en sú umræða hefur skiljanlega minnkað síðustu vikur.

Sam France á á Goal.com skoðar það hins vegar í dag hvaða markverðir eru líklegastir til að hreppa hnossið hjá Englendingum á næsta ári.

Markverðirnir fá núna meiri tíma til að sanna sig fyrir stórmótið og ná í þá eftirsóttu stöðu að vera aðalmarkvörður enska landsliðsins.

Á EM 2016, þegar England féll úr leik í 16-liða úrslitunum gegn Íslandi, voru Joe Hart, Tom Heaton og Fraser Forster markverðirnir þrír í hópnum. Enginn þeirra fór á HM 2018, þá voru Jordan Pickford, Jack Butland og Nick Pope í hópnum.

Hvaða markverðir fara á EM 2021?

Jordan Pickford
Þessi markvörður Everton er líklegastur til að byrja í fyrsta leik þar sem hann er núverandi aðalmarkvörður Englendinga. Hinn 26 ára gamli Pickford á vel yfir 100 úrvalsdeildarleiki og 24 A-landsleiki með Englandi.

Pickford stóð sig vel sem aðalmarkvörður á HM í Rússlandi og var hann hetjan í vítaspyrnukeppninni gegn Kólumbíu í 16-liða úrslitunum.

Hann hefur aftur á móti verið óstöðugur með félagsliði sínu, Everton. Heilt yfir hefur hann ekki verið sérstaklega góður. Hann hefur á þessu tímabili haldið hreinu í sex af 29 úrvalsdeildarleikjum.

Margir hafa kallað eftir því að Gareth Southgate, landsliðsþjálfari, taki annan markvörð í byrjunarliðið.

Nick Pope
Fór á HM sem annar af tveimur varamarkvörðum. Hinn 27 ára gamli Pope, sem er á mála hjá Burnley, er sá markvörður sem hefur oftast haldið hreinu á þessu tímabili.

Hann á aðeins tvo A-landsleiki að baki þar sem hann hefur verið á eftir markvörðum eins og Pickford og Joe Hart í goggunarröðinni.

Sú litla reynsla sem hann á með enska landsliðinu hefði getað haft neikvæð áhrif á möguleika hans fyrir EM, en nú er meiri tími fyrir hann að sækja sér reynslu.

Þess má geta að hann hefur haldið hreinu í báðum landsleikjum sínum til þessa; 2-0 sigri á Kosta Ríka í vináttulandsleik 2018 og 4-0 sigri á Kosóvó í undankeppni EM á síðasta ári.

Dean Henderson
Henderson hefur verið einn besti markvörður ensku úrvalsdeildarinnar á þessari leiktíð. Hann er í láni hjá Sheffield United frá Manchester United.

Frammistaða hans hefur verið það góð að margir stuðningsmenn Manchester United vilja sjá hann sem aðalmarkvörð félagsins á næstu leiktíð frekar en David de Gea. Hann er framtíðarmarkvörður Man Utd, það er engin spurning.

Hann hefur haldið hreinu í tíu af 27 úrvalsdeildarleikjum sem hann hefur spilað með Sheffield United.

Eins og Pope er hann reynslulaus með enska landsliðinu og á hann enn eftir að spila fyrsta A-landsleikinn. Nú fær hann meiri tíma til að sanna sig fyrir Southgate.

Ólíklegri kostir
Margir aðrir markverðir hafa staðið sig vel á þessu tímabili og gætu átt möguleika á að komast í hópinn. Þar á meðal eru Aaron Ramsdale hjá Bournemouth, Fraser Forster hjá Celtic og Ben Foster hjá Watford. Hann nefnir einnig Alex McCarthy og Angus Gunn sem eru að berjast um markvarðstöðuna hjá Southampton.

Greinina má lesa í heild sinni hérna.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner