banner
   þri 22. júní 2021 12:00
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Innkastið 
„Leggst á sálina og hann þarf tíma til að ná áttum"
Valgeir Valgeirsson.
Valgeir Valgeirsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„HK er í brasi," segir Tómas Þór Þórðarson í Innkastinu en Kópavogsliðið er í fallsæti í Pepsi Max-deildinni með aðeins einn sigurleik í níu umferðum.

Liðið hefur engan veginn fundið taktinn og þar á meðal er lykilmaðurinn Valgeir Valgeirsson. Þessi 18 ára leikmaður var magnaður í fyrra og fór til Brentford á lán eftir tímabilið.

Fæstir bjuggust við að sjá Valgeir aftur í Pepsi Max-deildinni á þessu tímabili en hann kom heim rétt fyrir mót. Hann hefur hinsvegar aðeins verið skugginn af því sem hann sýndi í fyrra.

„Ég trúi ekki að hann sé beygður miðað við karakterinn," segir Tómas en Ingólfur Sigurðsson segir skiljanlegt að Valgeir þurfi tíma til að fóta sig aftur.

„Þetta leggst á sálina, auðvitað. Þú ert með vonir og væntingar en svo gengur það ekki upp og einum degi síðar ertu mættur á klakann að spila í Pepsi Max-deildinni. Sóttkví og er svo á bekknum, hann þarf bara smá tíma til að ná áttum. Svo er HK-liðið ekki alveg að dansa og þá er enn erfiðara að koma sér inn í hlutina," segir Ingólfur.

Hlutirnir hafa ekki verið að ganga upp hjá HK og í Innkastinu var talað um að liðið gæti endað á því að falla ef ekkert fer að breytast.

„Ég hélt eldræðu um þá á undirbúningstímabilinu hvað þeir væru geggjaðir og með góða vörn. Þegar þeir fara á skrið þá eru þeir þéttir, þeir eru aðeins meira með boltann en á síðasta tímabili og eru að taka skref í að vera aðeins meira en lið sem liggur á teig og neglir fram. Bestu þjálfararnir í deildinni voru að benda á HK á undirbúningstímabilinu og lofsyngja það sem væri verið að gera. Svo koma þeir inn í mótið og þeir geta ekki neitt," segir Tómas.

„Þetta hefur komið á óvart. Eins og með varnarleikinn. Þrátt fyrir að þú sért að reyna að spila meiri sóknarleik þá má vörnin ekki gleymast og þeir eru komnir með sautján mörk á sig. Maður nær ekki utan um þetta. Ef þetta heldur áfram í svona neikvæðum spíral þá gæti þetta endað mjög illa, á einn veg," segir Ingólfur.

Hlustaðu á Innkastið í hlaðvarpsveitum eða í spilaranum hér að neðan.
Innkastið - Logi látinn fjúka og víti fara forgörðum
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner