mið 22. júní 2022 18:02
Brynjar Ingi Erluson
Maguire gæti misst fyrirliðabandið
Harry Maguire verður áfram hjá Man Utd en gæti misst fyrirliðabandið
Harry Maguire verður áfram hjá Man Utd en gæti misst fyrirliðabandið
Mynd: Getty Images
Enski varnarmaðurinn Harry Maguire gæti misst fyrirliðabandið hjá Manchester United í sumar en þetta kemur fram í grein Daily Mail í dag.

Maguire, eins og margir liðsfélagar hans, átti martraðatímabil með United á síðustu leiktíð og missti sæti sitt í vörn liðsins undir stjórn Ralf Rangnick.

Þrátt fyrir það var hann áfram fyrirliði liðsins en Rangnick stakk upp á því að leikmenn myndu kjósa um það hver yrði næsti fyrirliði félagsins.

Nú eru breyttir tímar. Erik ten Hag tók við keflinu af Rangnick og er hreinsunin farin af stað. Jesse Lingard, Paul Pogba, Juan Mata, Edinson Cavani, Nemanja Matic og Lee Grant eru farnir frá félaginu en Maguire mun halda stöðu sinni í hópnum.

Daily Mail segir frá því að Maguire gæti þó misst fyrirliðabandið í sumar. Ten Hag vildi lítið tjá sig um það þegar hann tók við í síðasta mánuði.

Maguire fékk fyrirliðabandið undir stjórn Ole Gunnar Solskjær, aðeins sex mánuðum eftir að félagið keypti hann frá Leicester fyrir 80 milljónir punda.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner