Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   fim 22. september 2022 22:59
Brynjar Ingi Erluson
Fimmtán leikmenn spænska landsliðsins neita að spila fyrir þjálfarann
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Fimmtán leikmenn spænska kvennalandsliðsins hafa neitað að spila fyrir landsliðið á meðan Jorge Vilda er þjálfari liðsins. Þetta kemur fram í fjölmiðlum á Spáni í kvöld.

Vilda hefur lengi starfað fyrir spænska sambandið. Hann þjálfaði bæði U17 og U19 ára landsliðin og hjálpaði fjölmörgum leikmönnum að taka skrefið upp í A-landsliðið, þar á meðal Alexiu Putellas, bestu fótboltakonu heims.

Árið 2015 tók hann við A-landsliðinu en á þeim tíma hefur liðið komist í 16-liða úrslit á HM og tvisvar í 8-liða úrslit EM.

Liðið var talið sigurstranglegt fyrir EM í sumar en Putellas meiddist rétt fyrir mót, sem reyndist mikil blóðtaka. Liðið datt úr leik fyrir Englendingum, sem unnu svo mótið, en andlega hliðin varð þeim einnig að falli ef marka má spænska miðla.

Fimmtán leikmenn landsliðsins hafa nú neitað að spila fyrir Spán á meðan Vilda þjálfar þar. Leikmenn segja Vilda hafa skapað eitraða menningu innan hópsins sem hafi bitnað á frammistöðu liðsins og haft veruleg áhrif á andlega heilsu þeirra.

Leikmennirnir sendu tölvupóst á spænska sambandið og tilkynntu þar að þær myndu ekki spila á meðan Vilda væri þjálfari liðsins en Marca nafngreinir alla leikmennina. Putellas er ekki á listanum.

Listinn: Ainhoa Vicente Moraza, Patri Guijarro, Leila Ouahabi, Lucía García, Mapi León, Ona Batlle, Laia Aleixandri, Claudia Pina, Aitana Bonmatí, Andrea Pereira, Mariona Caldentey, Sandra Paños, Lola Gallardo, Nerea Eizaguirre, Amaiur Sarriegi.
Athugasemdir
banner
banner
banner