Tveir leikmenn Njarðvíkur hafa verið orðaðir við HK undanfarna daga. Nýráðinn þjálfari HK, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þekkir vel til hjá Njarðvík eftir að hafa stýrt liðinu í tvö og hálft ár.
Gunnar tók tvo með sér í Kórinn úr þjálfarateymi Njarðvíkur, aðstoðarþjálfarann Arnar Smárason og styrktarþjálfarann Sigurð Már Birnisson.
Þá er möguleiki á að tveir Njarðvíkingar fylgi teyminu upp í efri byggðir Kópavogs, en fjallað hefur verið um áhuga HK á Dominik Radic, Svavari Erni Þórðarsyni og Sigurjóni Má Markússyni. En sá síðastnefndi skrifaði undir framlengingu á samningi sínum við Njarðvík á dögunum.
Bæði Radic og Svavar leikmennirnir eru þó enn samningslausir. Radic er 29 ára framherji sem skoraði tólf mörk í sumar. Svavar er rúmlega tvítugur hægri bakvörður sem nýtti sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við Njarðvík á dögunum.
Gunnar Heiðar var nýlega spurður út í hvort að hann hefði áhuga á að taka leikmenn Njarðvíkur til sín upp í Kór í viðtali við Fótbolta.net.
„Þeir eru samningslausir, ásamt fleirum. Þetta eru strákar sem fóru í svakalega vinnu með mér. Þeir lögðu allt í þetta svo að við myndum upplifa drauminn í Njarðvík. Að einhverju leyti gerðum við það, við fórum helvíti langt með þetta og vorum nálægt þessu. Einhverjir myndu segja að þetta væri kraftaverk. Mér fannst þetta persónulega vera vilji frá okkur í teyminu og leikmönnum.
„Það voru margir ungir strákar sem lögðu mikið á sig þarna sem eru núna samningslausir og mér þykir mjög vænt um. Hversu marga eða hvort þeir verða einhverjir á eftir að koma í ljós. Ég er ekki kominn til HK til að hrúga gömlum Njarðvíkingum þangað. Ég sé hvað er í boði í HK, mér finnst það ótrúlega spennandi, ungir og virkilega góðir leikmenn þarna,“ sagði Gunnar Heiðar, nýráðinn þjálfari HK, að lokum.


