Dominic Solanke hefur verið fjarverandi vegna meiðsla í ökkla frá því í lok ágústmánaðar. Hann gekkst nýverið undir aðgerð á ökkla en segir í samtali við The Athletic að hann áttaði sig ekki á umfangi meiðslanna í fyrstu.
Framherjinn segir aðgerðina þó ekki hafa verið stórvægilega og býst ekki við langri endurkomu.
„Ég hélt að ég yrði bara stutt frá. Ég reyndi að koma aftur sem fyrst, en það gekk ekki og ég þurfti að fara í aðgerð. Ég er búinn að segja öllum að ég komi til baka mjög fljótlega frá því í ágúst, þannig ég þori ekki að setja ákveðinn tímaramma á þetta. Ég tek þetta dag frá degi og vona að þetta verði ekki mikið lengur.“
Solanke skoraði níu mörk í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en hann hefur einungis komið við sögu í tveimur deildarleikjum á núverandi tímabili.
„Ég hef ekki fengið mörg tækifæri til að spila undir Frank, en hann er frábær maður á mann. Leikmennirnir elska að hafa hann í kringum sig. Hann talar við alla og heldur fundi á hverjum degi. Umhverfið er frábært og það gengur allt ótrúlega vel.“
„Við höfum byrjað tímabilið vel. Þegar við á meiðslalistanum komum til baka og styrkjum hópinn, þá getum við vonandi afrekað stóra hluti.“



