Gonzalo Garcia gæti verið lánaður til Brighton frá Real Madrid - Man Utd vill sænskan táning - Liverpool leiðir kapphlaupið um Semenyo
   mið 19. nóvember 2025 11:37
Elvar Geir Magnússon
Liðinu refsað og Soucek sviptur fyrirliðabandinu
Mynd: EPA
Fótboltasamband Tékklands hefur ákveðið greiða tékkneskum landsliðsmönnum ekki bónusgreiðslur og svipta Tomas Soucek fyrirliðabandinu eftir að leikmenn virtu stuðningsmenn að vettugi eftir lokaleik sinn í undankeppni HM.

Tékkland vann 6-0 sigur gegn Gíbraltar en fyrir leikinn var ljóst að liðið myndi enda í öðru sæti riðilsins og fara í umspilið.

Harðkjarna stuðningsmenn Tékklands hafa verið gagnrýnir á liðið og eftir leikinn í gær sniðgengu leikmenn stuðningsmennina og þökkuðu ekki fyrir.

Tékkneska sambandið hefur beðið stuðningsmennina afsökunar og tilkynnt að leikmenn fái ekki bónusgreiðslur fyrir leikinn. Í staðinn fari upphæðin til góðgerðarmála.

Soucek, sem spilar fyrir West Ham, verður ekki fyrirliði í næsta leik en svo gæti staðan verið endurskoðuð.

Stuðningsmenn Tékklands hafa sakað landsliðsmennina um að vera ekki að leggja sig alla fram fyrir land og þjóð. Landsliðsþjálfarinn Ivan Hasek var rekinn eftir niðurlægjandi 2-1 tap gegn Færeyjum í síðasta mánuði.

Aðstoðarmaður Hasek, Jaroslav Köstl, stýrði tékkneska liðinu í þessum glugga en nýr þjálfari gæti verið ráðinn fyrir umspilið. Tékkland komst síðast á HM árið 2006 en á morgun verður dregið í umspilið.
Athugasemdir
banner
banner