Fótboltinn mun líklega ekki snúa aftur 'heim' að sögn enska sparkspekingsins Jamie Carragher, en hann hefur nefnt þær þrjár þjóðir sem eru líklegastar til að vinna HM á næsta ári.
Englendingar hafa náð frábærum árangri síðustu ár og komst meðal annars tvisvar í röð í úrslit Evrópumótsins og í undanúrslit HM 2018 undir stjórn Gareth Southgate.
Thomas Tuchel stýrir liðinu á HM á næsta ári, en Carragher telur að þrátt fyrir frábæran árangur síðustu ára þá sé enska liðið ekki líklegt til að fagna sigri á næsta ári.
Carragher nefnir þrjár þjóðir sem eru líklegastar en England er í flokknum fyrir neðan.
„Maður verður að horfa til ríkjandi meistara Argentínu. Verður þetta í síðasta sinn sem Messi spilar fótbolta? Þeir munu örugglega fá mikinn stuðning, sérstaklega ef þeir spila í Miami og bara þau áhrif sem hann hefur haft á MLS-deildina með Inter Miami.“
„Ef við horfum á Evrópu þá eru það Evrópumeistarar Spánverja með Lamine Yamal og svo Frakkland með Kylian Mbappe, sem eru tveir bestu leikmenn heims í augnablikinu ásamt auðvitað Ousmane Dembele.“
„Mér finnst mjög erfitt að horfa á mót og ekki nefna Frakkland. England kemur síðan í næsta flokki fyrir neðan ásamt Portúgal. Liðin sem ég nefndi áður eru líklegust, en England og Portúgal eiga örlítinn séns,“ sagði Carragher.
Athugasemdir