Jean-Philippe Mateta, framherji Crystal Palace og franska landsliðsins, segir að hann og Wilfried Zaha hafi hreinsað andrúmsloftið eftir að Mateta sagði Fílabeinsstrendinginn hafa hlegið að háleitum markmiðum hans í klefanum er þeir léku saman á Englandi.
Mateta var valinn í A-landslið Frakka í fyrsta sinn í þessum mánuði og skoraði hann í fyrsta leiknum í 2-2 jafnteflinu gegn Íslandi á Laugardalsvelli.
Frakkinn tjáði sig um að það hafi verið langþráður draumur að spila með Frökkum, en að liðsfélagar hans í Palace hafi hlegið að honum þegar hann talaði um draum sinn í klefanum.
Nafngreindi hann Zaha sérstaklega sem var mjög ósáttur við ummæli Mateta.
Zaha sagði þetta hafa verið létt grín í klefanum enda voru stór nöfn að spila í fremstu víglínu hjá Frökkum á þeim tíma sem Mateta talaði opinskátt um draum sinn og að fleiri leikmenn hafi hlegið, en honum fannst óþarfi af Mateta að nafngreina sig sérstaklega í þessu samhengi.
Sagðist hann þá aldrei hafa lagt liðsfélaga í einelti og að honum hafi fundist það lélegt af Mateta að fara með þetta í fjölmiðla.
Mateta ræddi við blaðamenn fyrir leik liðsins gegn AEK Larnaca í Sambandsdeildinni í gær og sagði þá hann og Zaha hafa leyst ágreininginn.
„Ég ræddi við hann og það er allt í góðu milli okkar. Við töluðum saman í einrúmi. Það var allt og sumt,“ sagði Mateta.
Zaha er goðsögn hjá Palace. Hann ólst upp hjá félaginu og spilaði í heildina þrettán tímabil með liðinu. Mateta gekk í raðir Palace árið 2021 og lék tvö tímabil með Zaha.
Athugasemdir