
Íslenska kvennalandsliðið mætir því norður írska í umspili Þjóðadeildarinnar næstkomandi föstudag. Liðið er statt í Belfast og Fótbolti.net ræddi við landsliðskonuna Sveindísi Jane Jónsdóttur á hóteli landsliðsins.
„Það er alltaf jafn gaman að hitta stelpurnar, maður segir þetta nánast í hverju viðtali í byrjun hvers landsliðsverkefnis. En þetta er mjög gaman og það eru allir mjög spenntir fyrir leiknum,“ segir Sveindís.
Tvær breytingar urðu á starfsteyminu eftir EM, annars var Ólafur Kristjánsson, ráðinn í starf aðstoðarþjálfara og hins vegar Amir Mehica í stöðu markvarðarþjálfara, ásamt því að sjá um föst leikatriði.
Þeir taka við af Ásmundi Haraldssyni sem hafði verið aðstoðarþjálfari, og Ólafi Péturssyni markvarðarþjálfara.
„Það er alltaf gaman að fá breytingar en auðvitað leiðinlegt að sjá fólk fara. Þetta eru jákvæðar breytingar, Óli (Kristjáns) og Amir (Mehica) koma sterkir inn með sína visku og nýja sýn.“
„Óli er með sóknarleikinn og er mjög hávær, segir sínar skoðanir. Það er bara flott. Amir er með föstu leikatriðin, það er gaman að fá nýtt inn í þetta og heilbrigt að fá nýja sýn. Þeir eru búnir að gera vel og komast vel inn í hópinn.“
Ef Ísland sigrar einvígið heldur liðið sæti sínu í A-deild Þjóðadeildarinnar en ef illa fer fellur liðið í B-deild.
„Þetta eru mjög mikilvægir leikir fyrir okkur upp á framhaldið, upp á að komast á HM. Maður þarf að horfa alla leið þangað, en eins og ég segi þá eru þetta mjög mikilvægir leikir.“
Viðtalið við Sveindísi má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.