þri 24. maí 2022 15:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Fyrir þig, amma Sigga"
Mynd: Houston Dynamo
Þorleifur Úlfarsson skoraði á dögunum sitt fyrsta mark í bandarísku MLS-deildinni. Þorleifur skoraði markið aðfaranótt sunnudags í 0-3 útisigri gegn LA Galaxy.

Markið skoraði hann á 62. mínútu í sínum fyrsta byrjunarliðsleik í deildinni. Markið var frábært, Þorleifur splæsti í nokkur skæri inná vítateig andstæðinganna og þrumaði svo boltanum í netið.

Markið tileinkaði hann látinni ömmu sinni. Þorleifur fagnaði með því að fara úr treyjunni en undir treyjunni var hann í bol sem á stóð: „Fyrir ömmu Siggu".

Þorleifur birti í gærkvöldi færslu á Instagram. Þar segir hann frá því að hann hafi sex ára gamall sagt við ömmu sína, Sigríði Svanhildi Magnúsdóttur Snæland, að hann ætlaði að verða atvinnumaður í fótbolta. Sigríður féll frá árið 2015 eftir baráttu við krabbamein en hún hafði og hefur enn mikla þýðingu fyrir Þorleif.

„Þegar ég var sex ára gam­all sagði ég ömmu minni að ég myndi verða atvinnumaður í fótbolta þegar ég yrði eldri og að ég myndi hugsa um hana. Hún var besti vin­ur minn og sömu­leiðis fal­leg­asta og góðhjartaðasta mann­eskja í heim­in­um, ég skildi aldrei hvernig ég gæti átt það skilið að hafa hana í lífi mínu."

„Það hafði alltaf verið draum­ur minn að verða at­vinnumaður en ég gaf í raun og veru aldrei allt sem ég átti til þess að láta þann draum ræt­ast, það var bara eitt­hvað sem ég sagði henni því mér þótti vænt um hana."

„Þann 16. apríl 2015 fékk ég að halda í hönd­ina á henni og kveðja hana þegar hún varði síðasta degi sín­um í að berj­ast við krabba­mein. Allt frá þeim degi hef ég helgað líf mitt því að verða at­vinnumaður í knatt­spyrnu. Ég veit að þú ert að fylgj­ast með af himn­um ofan og ég vona að þú sért stolt af mér. Fyr­ir þig, Amma Sigga,"
skrifaði Þorleifur.


Athugasemdir
banner
banner
banner