Miðjumaður Everton orðaður við Man Utd - Ramos til Liverpool?
banner
   sun 28. desember 2025 05:55
Ívan Guðjón Baldursson
Afríkukeppnin í dag - Stórveldi mætast í toppslag
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Það eru fjórir leikir á dagskrá í Afríkukeppninni í dag þar sem önnur umferðin fer fram í riðlum E og F.

Pierre-Emerick Aubameyang, Mario Lemina og félagar í Gabon þurfa á sigri að halda í botnslag gegn Mósambík, en þar má finna Reinildo Mandava og Geny Catamo í liðinu.

Þjóðirnar töpuðu í fyrstu umferð gegn Kamerún og Fílabeinsströndinni, sem mætast í stórleik dagsins. Liðin eigast við í kvöldleiknum í afar spennandi toppslag.

Úrvalsdeildarleikmennirnir Bryan Mbeumo og Carlos Baleba eru í leikmannahópi Kamerún á meðan í röðum Fílabeinsstrandarinnar má finna gríðarlega marga öfluga leikmenn á borð við Franck Kessié, Jean Michaël Seri, Ibrahim Sangaré og Wilfried Zaha.

Hinir eftirsóttu Yan og Ousmane Diomande, sem eru ekki skyldir, eru einnig partur af hópnum ásamt Amad Diallo, Evann Guessand, Emmanuel Agbadou, Willy Boly, Evan Ndicka og Odilon Kossounou sem leika ýmist í ensku úrvalsdeildinni eða ítölsku Serie A deildinni.

Önnur nöfn sem lesendur gætu kannast við eru Seko Fofana og Jean-Philippe Gbamin, að ógleymdum Guéla Doué.

Það er því mikið fjör framundan í F-riðli en í E-riðli mæta Riyad Mahrez og félagar frá Alsír til leiks eftir þægilegan sigur í fyrstu umferð. Alsíringar spila við Búrkína Fasó í toppslag.

Alsír er með öflugt lið sem inniheldur til að mynda Rayan Aït-Nouri bakvörð Manchester City og nokkra afar öfluga leikmenn úr þýsku deildinni, þar sem má helst nefna Ramy Bensebaini hjá Dortmund, Mohamed Amoura hjá Wolfsburg og Farés Chaïbi hjá Leverkusen.

Ismaël Bennacer fyrrum miðjumaður AC Milan hefur einnig verið mikilvægur hlekkur í liðinu í gegnum tíðina og er með í hópnum.

Frægustu leikmenn í hópi Búrkína Fasó eru Edmond Tapsoba varnarmaður Leverkusen, Bertrand Traoré sóknarmaður Sunderland og Dango Ouattara kantmaður Brentford. Þar má einnig nefna fyrrum úrvalsdeildarleikmanninn Issa Kaboré.

Að lokum eigast Miðbaugs-Gínea og Súdan við í botnslag E-riðils.

Leikir dagsins
12:30 Gabon - Mósambík
15:00 Miðbaugs-Gínea - Súdan
17:30 Alsír - Búrkína Fasó
20:00 Fílabeinsströndin - Kamerún
Athugasemdir
banner