Liverpool snýr sér að Barcola - Guehi of dýr fyrir Barcelona
banner
   fös 26. desember 2025 09:00
Brynjar Ingi Erluson
Kompany: Ótrúlega mikilvægt fyrir andlega og líkamlega heilsu
Vincent Kompany
Vincent Kompany
Mynd: Fótbolti.net
Vincent Kompany, þjálfari Bayern München í Þýskalandi, hrósar Þjóðverjum fyrir að hafa vetrarfrí í deildinni og segir það vera ótrúlega mikilvægt fyrir andlega og líkamlega heilsu.

Kompany spilaði með Manchester City á Englandi og stýrði síðar Burnley í tvö ár en hann fékk ekkert frí yfir jólin á þrettán árum sínum í landinu.

Hann er núna farinn að skilja það hvað það er mikilvægt fyrir leikmenn og þjálfara að fá smá frí til þess að ná endurheimt, bæði andlega og líkamlega.

„Ég hef aldrei fengið vetrarfrí á ellefu árum mínum sem atvinnumaður og tvö ár sem þjálfari á Englandi. Það var ekkert frí,“ sagði Kompany.

„Þú áttar þig ekki á því hvað þú þarft mikið á því að halda, bara til að viðhalda orkunni. Fyrir leikmenn sem spila á Englandi þá eru þetta bara fastir liðir eins og venjulega, og í raun fleiri leikir á þessum tíma. Það helst þannig alveg fram að HM.“

„Ég man að sem leikmaður þá fékk ég einu sinni sex daga frí á heilu ári, en ég finn það núna hversu mikilvægt þetta vetrarfrí er fyrir bæði andlega og líkamlega heilsu,“
sagði Kompany.

Jürgen Klopp, fyrrum stjóri Liverpool, barðist lengi fyrir vetrarfrí á Englandi en án árangurs. Spilað er á Englandi á annan í jólum og rétt fyrir jól, en þýska deildin fór í frí 21. desember og fer ekki aftur af stað fyrr en 9. janúar.
Athugasemdir
banner
banner