Aston Villa vann frábæran endurkomusigur á Chelsea í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar í dag og var Unai Emery þjálfari hress að leikslokum.
Chelsea var talsvert sterkara liðið í fyrri hálfleik og voru heimamenn óheppnir að leiða aðeins 1-0 þegar flautað var til hálfleiks. Aston Villa tók völdin eftir leikhlé og náði að skora tvö mörk til að snúa stöðunni við og stela sigrinum.
„Við héldum okkur við sama leikplan í seinni hálfleik og við höfðum verið með í þeim fyrri. Helsti munurinn er bara hversu vel Chelsea spilaði fyrri hálfleikinn, þeir voru stórkostlegir en við vörðumst mjög vel. Við fengum bara eina hornspyrnu á okkur og þeir skoruðu úr henni. Í leikhlénu töluðum við um vera ákafari og sýna meiri ástríðu," sagði Emery sem gerði þrefalda skiptingu í síðari hálfleik. Ollie Watkins kom þá inn af bekknum og átti eftir að skora tvennu.
„Við vorum að spila betur en ég sá að strákarnir voru að þreytast svo við þurftum að fá ferska fótleggi á völlinn. Ollie (Watkins) var rosalega einbeittur og gerði gæfumuninn í dag. Hann sinnti sinni vinnu samkvæmt leikplani og skoraði tvö mörk sem skiptu sköpum."
Aston Villa heimsækir topplið Arsenal um næstu helgi, en Villa vann heimaleikinn sinn gegn Arsenal fyrr í mánuðinum. Liðið er þremur stigum á eftir Arsenal og getur því jafnað keppinauta sína með sigri á Emirates.
„Við erum ekki að hugsa um titilbaráttuna útaf því að það eru svo mörg stórlið hérna í kring. Það má ekki gleyma Liverpool og Chelsea. Við getum ekki byrjað að tala um titilbaráttu fyrr en í 34. umferð deildartímabilsins. Okkur gengur mjög vel þessa stundina og það mikilvægasta er að halda áfram að einbeita sér bara að næsta leik. Það eru ennþá 20 umferðir eftir af tímabilinu!"
Athugasemdir




