Miðvörðurinn öflugi Ayden Heaven ætlar ekki að gefa kost á sér fyrir A-landslið Gana sem hefur sett sig í samband við hann.
Gana vill fá Heaven í landsliðið fyrir HM í Bandaríkjunum á næsta ári, en varnarmaðurinn vill frekar spila fyrir England. Heimildarmenn BBC segja að Heaven ætli að gera allt í sínu valdi til að spila fyrir enska landsliðið frekar en það ganverska.
Heaven er aðeins 19 ára gamall en hann fæddur og uppalinn í London, höfuðborg Englands. Hann á leiki að baki fyrir U18, U19 og U20 landsliðin og gæti leikið fyrir Gana þökk sé ganverskum afa sínum.
Hann ólst upp hjá Arsenal en skipti yfir til Manchester United fyrir tæpu ári síðan og virðist vera búinn að vinna sér inn sæti í byrjunarliðinu undir stjórn Ruben Amorim. Hann hefur staðið sig mjög vel í desember og fengið hrós úr ýmsum áttum.
Heaven var lítið í kringum byrjunarliðið í haust en fékk loks tækifæri vegna meiðslavandræða í varnarlínunni í byrjun desember og hefur verið valinn í byrjunarliðið síðan. Hann var meðal bestu leikmanna Man Utd í 2-1 tapi gegn Aston Villa fyrir rúmri viku áður en hann var svo maður leiksins í 1-0 sigri gegn Newcastle um helgina.
Gana er í erfiðum riðli með Englandi, Króatíu og Panama á HM næsta sumar.
„Ayden er að taka augljósum framförum í hverjum einasta leik. Hann er ungur en maður sér hvað hann er ótrúlega efnilegur. Hann er að æfa mjög vel og ef hann heldur áfram að spila svona vel verður mjög erfitt að taka hann úr byrjunarliðinu," segir Ruben Amorim þjálfari Man Utd.
Athugasemdir




