Arne Slot, stjóri Liverpool, segir það vera hugsanlegt að hann noti ítalska leikmanninn Federico Chiesa upp á topp næstu mánuði.
Alexander Isak verður frá næstu mánuði eftir að hafa ökklabrotnað í 2-1 sigri á Tottenham.
Hugo Ekitike er því eina hreinrækta 'nían' sem Liverpool er með en Slot segist vera með lausn við því vandamáli.
Segir hann að það sé möguleiki á að nota Chiesa þar ef Ekitike hefur ekki orkuna í að klára leiki.
Chiesa hefur staðið sig vel í þeim leikjum sem hann hefur spilað, en virðist þó ekki vera með traustið frá Slot.
„Hann er ekki eina 'nían' sem ég er með. Federico Chiesa getur spilað þessa stöðu þannig ég hef þann möguleika, ef Ekitike er dauðþreyttur, að geta notað Chiesa,“ sagði Slot.
Chiesa hefur verið orðaður við félög á Ítalíu en það er ólíklegt að Liverpool leyfi honum að fara miðað við hversu þunnskipað liðið er fram á við. Ítalinn gæti fengið fleiri mínútur á næstu vikum, en Mohamed Salah er þessa stundina með Egyptum í Afríkukeppninni í Marokkó og því einnig fjarverandi.
Athugasemdir




