Miðjumaður Everton orðaður við Man Utd - Ramos til Liverpool?
banner
   lau 27. desember 2025 18:45
Ívan Guðjón Baldursson
Dyche mjög ósáttur með dómgæsluna
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Sean Dyche þjálfari Nottingham Forest var ósáttur með dómgæsluna eftir naumt tap á heimavelli gegn toppbaráttuliði Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Rayan Cherki skoraði sigurmark leiksins eftir hornspyrnu á 83. mínútu en Dyche telur sig hafa séð augljóst brot í aðdragandanum þegar Morgan Gibbs-White féll til jarðar eftir baráttu við Nico O'Reilly.

„Þetta var svo auðveldur leikur til að dæma, þetta átti að vera svo auðveld ákvörðun fyrir VAR-herbergið," sagði Dyche eftir lokaflautið.

„Það er leiðinlegt að þurfa að mæta hingað eftir leik og tala um dómgæsluna þegar við spiluðum svona frábærlega gegn rosalega sterkum andstæðingum. Dómararnir höfðu alltof mikil áhrif á leikinn, allir sem horfðu gátu séð það hvort sem þeir voru á áhorfendapöllunum eða heima í stofu.

„Morgan Gibbs-White reyndi að koma sér fyrir skotið en átti í erfiðleikum því það var augljóslega brotið á honum í aðdragandanum. Þetta er mjög augljóst brot, sama hvernig þú lítur á þetta. Þarna er komið í veg fyrir að leikmaðurinn geti varist skotinu og þess vegna á að flauta.

„Ég er mikill stuðningsmaður VAR kerfisins en ég skil ekki hvernig er hægt að klúðra þessu. Þetta er svo augljóst."


Sjáðu markið

Rob Jones dæmdi upprunalega mark og ákvað VAR-herbergið að skerast ekki í leikinn eftir nánari athugun.

Dyche vildi einnig sjá Ruben Dias fá seinna gula spjaldið sitt þegar hann braut af sér í upphafi síðari hálfleiks eftir að hafa fengið að líta fyrra gula spjaldið í fyrri hálfleik. Igor Jesus var að komast í frábæra stöðu í skyndisókn en Dias stöðvaði hann með broti.

„Þeir segja að þetta hafi verið slys en við vitum hvernig það er þegar leikmaður sleppur í gegn og það er 'óvart' brotið á honum, það er bara rautt spjald. Hvers vegna er þetta þá ekki gult? Mér finnst þetta mjög skrýtið. Ég er gjörsamlega hlessa að hann hafi ekki verið sendur í sturtu."

Forest er í neðri hluta úrvalsdeildarinnar með 18 stig eftir 18 umferðir.

Man City er í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir toppliði Arsenal.
Athugasemdir
banner