Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 25. maí 2022 11:06
Innkastið
Finnst FH hægt, lélegt og illa skipulagt - „Þarf að stokka vel upp"
FH er aðeins í sjöunda sæti.
FH er aðeins í sjöunda sæti.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum. Mér finnst liðið hægt, lélegt og illa skipulagt. Leikmannakaup og uppstilling á liðinu, þetta er bara lélegt," segir Magnús Haukur Harðarson, stuðningsmaður FH, í Innkastinu.

FH er aðeins með sjö stig að loknum sjö umferðum í Bestu deildinni en liðið tapaði gegn Keflavík um síðustu helgi.

„Það var aldrei neitt flug á leiknum, aldrei neitt spil og tempóið var lágt," segir Magnús um leikinn.

„Fyrir tímabilið var ég þokkalega spenntur, auðvitað missir liðið Jónatan Inga á versta tíma, en áður en hann fór vantaði annan framherja. Steven Lennon er enginn framherji og Matti Villa hefur verið vonbrigði síðan hann kom. Mér finnst hann stundum þungur og hægur og í uppspili FH er hans sterkasta hlið ekki að nýtast."

Lennon fékk mjög gott færi til að jafna gegn Keflavík en hann hefur ekki verið að nýta færin.

„Lennon hefði átt að vera búinn að klára leikinn. Hann hefur ekki verið vanur að klúðra þessum færum sem hann er að klúðra núna. Það er áhyggjuefni fyrir FH, hann er ekki að nýta þessi færi. Ég ætla ekki að setja þetta á árin heldur lítið sjálfstraust," segir Magnús.

Stigasöfnunin svipuð og þegar Logi var rekinn
Í þættinum er rætt um samsetninguna á FH hópnum.

„Það er eins og það þurfi að koma öllum miðjumönnunum inn í liðið. Þurfti að sækja Finn Orra til að starta í FH á þessum tímapunkti? Ég held ekki. Eggert Gunnþór er kominn aftur og sitt sýnist hverjum. Kiddi Freyr er bestur í að fá boltann, snúa og setja hraða menn í gegn. Kannski koma sér inn í teig og skora frá vítapunktinum. En það er bara enginn hraði í liðinu."

„Logi Ólafsson, sá merki maður, var með betri árangur og var rekinn. Ég er ekki að segja að Óli Jó eigi að vera rekinn en það er spurning hvort hann hafi verið málið fyrir FH á þessum tímapunkti. Það versta sem kom fyrir FH var að KSÍ þurfti að fá Eið Smára á sínum tíma," segir Magnús en Logi var látinn fara þegar FH var með tíu stig eftir átta leiki í fyrra.

„Næsti deildarleikur er FH - KR (á sunnudag) og eins og staðan er núna er þetta leikur milli liða sem eru að fara að berjast um sjötta sætið. Hver hefði trúað því að þessi lið yrðu í þeirri stöðu? Góður þjálfari sagði við mig að þetta væri tólf stiga leikur. Þeir sem standa að FH geta ekki verið sáttir með sjö stig á þessum tímapunkti."

„Það eru ansi margir sem telja sig ráða í Kaplakrika, sumir vita ekki hverjir ráða. Það þarf að stokka vel upp til að bjartari tímar komi í Krikann. Þetta er umræða sem menn fara oft í kringum, menn eru oft hræddir við FH. Það getur vel verið að mér verði meinaður aðgangur að Kaplakrika eftir þáttinn," segir Magnús.

Þór Bæring fjölmiðlamaður var einnig í þættinum. „Það vantar stefnu, ekki bara hjá FH heldur fleiri félögum. Það vantar bæði karla- og kvennamegin í FH. Börnin mín æfa með FH og ég er mikið í Kaplakrika en ég skil ekki hver stefna FH er," segir Þór.
Innkastið - Stefnuleysi og stór lið komin í mikil vandræði
Athugasemdir
banner
banner