sun 25. júlí 2021 08:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Gaui Lýðs: Það er alvöru gredda og hugarfar
Lengjudeildin
Guðjón Pétur Lýðsson.
Guðjón Pétur Lýðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta small hjá okkur eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik. Þetta leit ekki vel út hjá okkur en við rifum okkur í gang og spiluðum nánast óaðfinnanlega í seinni hálfleik," segir Guðjón Pétur Lýðsson, leikmaður ÍBV, í útvarpsþættinum Fótbolti.net.

ÍBV er í öðru sæti Lengjudeildarinnar en liðið vann 4-1 sigur í toppbaráttuslag gegn Grindavík á föstudag. Grindavík var yfir í hálfleik en eftir hlé svöruðu Eyjamenn með sinni bestu frammistöðu á tímabilinu.

„Ég held að þetta hafi verið okkar besti hálfleikur á tímabilinu, síðan ég kom. Við spiluðum ótrúlega vel þennan seinni hálfleik og mörkin hefðu getað orðið fleiri," segir Guðjón sem er ákveðinn í að hjálpa ÍBV upp í efstu deild.

„Það er hrikalega flottur andi í hópnum og margir flottir strákar. Það er alvöru gredda í liðinu og alvöru hugarfar. Menn eru samstíga í því að koma þessu liði upp um deild og í þessari deild máttu ekki misstíga þig mikið. Ef þú tapar leik verður að svara því sem fyrst. Þegar það hefur komið mótlæti í sumar þá hafa menn þjappað sér saman og svarað inni á vellinum."

„Við erum drullugott lið í þessari deild og markmiðið er skýrt, við ætlum okkur upp úr þessari deild. En það þarf samt margt að ganga upp. Þú þarft alltaf að vera klár í hverjum einasta leik."

Varamarkvörðurinn virkilega efnilegur
Hinn tvítugi Jón Kristinn Elíasson var í marki ÍBV á föstudag en Halldór Páll Sigurðsson aðalmarkvörður var ekki á skýrslu. Hvar var Halldór?

„Hann er að glíma við einhverja höfuðáverka. Jón Kristinn kom inn, hann er virkilega efnilegur markvörður og stóð sig mjög vel. Fyrir utan mistökin í markinu hjá þeim var hann öruggur í öllu sem hann var að gera," segir Guðjón.

Má búast við því að Halldór verði orðinn klár í næsta leik?

„Ég ætla nú ekki að svara fyrir hann. Hann er í einhverri rannsókn og bara verið að skoða hann."

Varnarmaðurinn og fyrirliðinn Eiður Aron Sigurbjörnsson fór meiddur af velli í fyrri hálfleik en dansaði af krafti eftir leik þegar sigrinum var fagnað.

„Nei það var ekki alvarlegt. Hann vildi ekki bara taka neina áhættu. Það eru margir mikilvægir leikir og við erum með góðan hóp. Við þurftum að vera skynsamir og hann kemur sterkur inn í næsta leik."

Með skilaboð til stjórnvalda
Meðan á leik ÍBV og Grindavíkur stóð tilkynnti ríkisstjórnin um hertar samkomutakmarkanir vegna Covid-19 faraldursins. Þar með varð ljóst að fresta þarf þjóðhátíð í Eyjum en þetta er reiðarslag fyrir eyjuna.

„Við heyrðum aðeins af þessu í hálfleik og gátum ekki verið að gefa fólkinu fleiri slæmar fréttir. Nú er kannski komið að okkur, við þurfum bara að gleðja fólkið," segir Guðjón en í umræðunni er að reyna að halda þjóðhátíð síðar á árinu.

„Vonandi verður haldin einhver þjóðhátíð, mér finnst landinn eiga það skilið. Ég ætla ekki að henda neinni bombu í loftið með minni skoðun um allt þetta en vonandi tekst á næstu tveimur vikum að hefta þessa útbreiðslu og við getum farið að keyra hlutina í gang. En skilaboð til stjórnvalda: Þetta fer að verða gott."
Útvarpsþátturinn - Hugaðir Blikar og ÍBV gleður Eyjamenn eftir áfallið
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner