Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 26. janúar 2021 23:37
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Liðsfélagar koma Rudiger til varnar eftir brottrekstur Lampard
Antonio Rudiger.
Antonio Rudiger.
Mynd: Getty Images
Hluti af stuðningsmönnum Chelsea eru vægast sagt ósáttir við þýska varnarmanninn Antonio Rudiger eftir fréttaflutning í kjölfarið á brottrekstri Frank Lampard.

Lampard var rekinn frá félaginu í gær og staðfesti Chelsea ráðningu á Þjóðverjanum Thomas Tuchel í kvöld.

Í kjölfarið á brottrekstri Lampard hafa komið fram fréttir um að Rudiger hafi verið erfiður við að eiga á æfingasvæðinu. Hann hafi oftar en einu sinni rifist við fyrirliðann Cesar Azpilicueta eftir að hann féll aftar í goggunarröðina hjá Lampard.

Lampard er sagður hafa viljað selja Rudiger, Marcos Alonso og Jorginho síðasta sumar en það tókst ekki. Daily Mail sagði frá því að þeir hefðu ollið vandræðum fyrir Lampard.

CareFreeYouth, Twitter-reikingur sem fjallar um Chelsea, sagði þá að Rudiger hefði hagað sér sérstaklega illa. Hann hefði talað við aðra stjóra, sem hefðu hugsanlega getað tekið við Chelsea, áður en Lampard við rekinn og hann hefði lagt yngri leikmenn í einelti. Hann segist hafa fengið þessar upplýsingar og ef þær séu ósannar þá biðst hann afsökunar á þeim.

Rudiger hefur fengið að heyra það í kjölfarið á brottrekstri Lampard og nokkuð stór hluti stuðningsmanna Chelsea virðist vilja hann í burtu frá félaginu.

Hér að neðan má sjá myndir af ummælum við síðustu mynd Rudiger á samfélagsmiðlinum Instagram. Þar er Rudiger ítrekað hvattur til að yfirgefa félagið. Hann er yfirleitt ekki að fá meira en 100 ummæli á mynd á samfélagsmiðlinum en þessi mynd er komin með tæplega 6000 ummæli.

Tammy Abraham, sóknarmaður Chelsea, hefur komið liðsfélaga sínum til varnar.

„Ég er búinn að lesa alls konar vitleysu á samfélagsmiðlum um Antonio Rudiger í dag. Algjört kjaftæði. Toni er stóri bróðir okkar allra," skrifaði Abraham á Twitter.

Cesar Azpilicueta, leikmaðurinn sem á að hafa rifist við Rudiger oftar en einu sinni, birti einnig mynd á Twitter sem túlka má sem stuðning við þýska varnarmanninn.

Chelsea leikur á morgun við Wolves og er það fyrsti leikur Thomas Tuchel við stjórnvölinn.




Athugasemdir
banner
banner
banner
banner