Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 27. apríl 2021 12:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Ágúst vildi fara til Íslands - „Ég pæli ekkert í fríi eða slíku"
Ágúst Eðvald
Ágúst Eðvald
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ágúst lagði upp tvö mörk eftir að hafa komið inn á gegn Leikni um helgina
Ágúst lagði upp tvö mörk eftir að hafa komið inn á gegn Leikni um helgina
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á leið inn á
Á leið inn á
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Í leik með Horsens
Í leik með Horsens
Mynd: Getty Images
Horsens er í botnsæti dönsku deildarinnar þegar skammt er eftir af tímabilinu
Horsens er í botnsæti dönsku deildarinnar þegar skammt er eftir af tímabilinu
Mynd: Getty Images
„Ég er brattur, var að klára æfingu með liðinu. Það er æft snemma, þetta er miklu betra en seinni parts æfingatímarnir sem mörg lið eru að vinna með," sagði Ágúst Eðvald Hlynsson, leikmaður FH, þegar fréttaritari heyrði í honum fyrir hádegi í dag.

Ágúst er á láni hjá FH frá danska félaginu Horsens út júnímánuð. Ef allt gengur upp þá spilar FH tólf deildarleiki á þeim tíma.

Hvernig er vera komin aftur til Íslands?

„Það er gaman, tók fimm daga í sóttkví og svo daginn eftir að ég losnaði fór ég beint í leik gegn Leikni. Ég náði ekki neinni æfingu fyrir þennan síðasta leik fyrir mót. Það gekk samt hrikalega vel í leiknum og það er mjög sterkt.“

Hvernig líst þér á þessa komandi mánuði?

„Mér líst rosalega vel á það, kem heim í gott lið, spila vonandi vel og við vinnum einhverja leiki. Þetta var mín hugmynd að fara til Íslands. Ég hugsaði þetta þannig að það voru sjö leikir eftir af tímabilinu úti og ég sá fram á kannski 150 mínútur í þeim leikjum. Eftir þá leiki tekur við sumarfrí."

„Ég hugsaði að það gæti verið betra að koma heim á lán, fara í gott lið og spila miklu meira en það sem ég var að fara fá í Horsens. Ég hugsaði að þetta væri best fyrir mig og mína þróun sem leikmann, að koma heim og spila þessa tólf leiki. Undirbúningstímabilið hjá Horsens hefst svo aftur í kringum það leyti sem ég á að fara aftur út (1. júlí). Tímabilið í Danmörku byrjar svo í lok júlí.“


Ertu ekkert orðinn þreyttur á stanslausum æfingum og leikjum? Þú kláraðir tímabilið með Víkingi í fyrra, fórst beint út í tímabil með Horsens og kemur inn í tímabilið hér.

„Nei, mér finnst þetta það gaman að ég einhvern veginn hef ekkert hugsað að ég þurfi frí. Mér líður það vel í líkamanum og er með á öllum æfingum. Vonandi heldur það áfram og maður hugsar auðvitað áfram vel um sjálfan sig. Ég pæli ekkert í fríi eða slíku.“

Ertu að sjá þetta sem innspýtingu upp á næsta tímabil með Horsens?

„Já, klárlega. Ég hugsa þetta svolítið þannig að það líði ekki of langur tími milli níutíu mínútna leikja hjá mér. Svo hugsaði ég að mig langaði frekar að spila fótbolta frekar en að fara í eitthvað sumarfrí."

„Ég er ekki þekktur fyrir að vera þolinmóður og það hefur kannski aðeins skemmt fyrir mér. En mér finnst bara það gaman að spila fótbolta og ef ég get spilað með toppliði á Íslandi þá finnst mér það persónulega betra en að sitja á varamannabekknum hjá Horsens.“


Við ræddum aðeins um hlaupagetuna síðast. Hvernig ætlaru að reyna bæta við stoðsendingum og mörkum sem mun væntanlega hjálpa þér áfram með þinn feril?

„Það er klárlega það sem ég þarf að gera meira af. Ég kom að átján mörkum með beinum þætti á þessum tveimur tímabilum með Víkingi. Það er mjög flott en ég vil gera enn meira af því. Þegar þú ert að spila með liði eins og FH þá hjálpar að þú ert með frábæra leikmenn í öllum stöðum í kringum þig. Ég veit að ég hef þetta allt í mér og held að það sé bara tímaspursmál hvenær þetta fer að rúlla almennilega hjá mér.“

Það hefur verið bras hjá FH á undirbúningstímabilinu, slæm úrslit en þú náttúrulega kemur inn fyrir síðasta æfingaleik. Hvernig ertu búinn að upplifa þessu fyrsta daga í FH?

„Ég kom inn í þennan leik gegn Leikni og mér fannst ég tengja við leikmennina. Þegar þú ert að spila með góðum leikmönnum þá er auðvelt að tengjast við þá. Maður sá þar að þetta eru allt toppmenn og þeir eru hungraðir."

„Ég mætti svo á æfingu í gær og í morgun og maður sér að það er stutt í mót. Menn eru vel gíraðir, ég hef ekki fylgst mjög mikið með undirbúningstímabilinu hér en ég hef lesið að það hafi ekki gengið neitt sérstaklega vel hjá liðinu. Maður sér það samt á leikmönnum að þeir eru vel gíraðir.“

„Þegar maður horfir á hópinn þá eru þetta allt stórir prófílar, hafa unnið titla bæði hér og erlendis. Það hjálpar til að geta lært af eiginlega öllum í liðinu.“


Hvernig er staðan hjá Horsens? Liðið er að öllum líkindum á leiðinni niður.

„Þetta er klúbbur sem er búinn að vera stabílíseraður í efstu deild og mér finnst þetta góður klúbbur til að taka næsta skref, ef maður stendur sig vel hjá liðinu þá opnast leiðin annað. Það er mikil uppsveifla í Danmörku eins og sést á U21 og A-landsliðinu. Ég veit að ég er í framtíðarplönum félagsins. Mér finnst ég vera á góðum stað verandi leikmaður Horsens."

Einhver lokaorð?

„Þetta er lán til 1. júlí og maður ætlar að reyna hjálpa liðinu að vinna sem flesta leiki á þeim tíma sem ég er hér og svo er framhaldið bara skoðað," sagði Ágúst.

Sjá einnig:
„Mjög heillandi að spila í Superliga" - Fór að spila á undan áætlun (25. mars)
Athugasemdir
banner
banner