mið 27. október 2021 12:42
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Raya meiddist alvarlega - Í skoðun hvort kalla megi Patrik til baka
David Raya
David Raya
Mynd: Getty Images
Patrik Sigurður.
Patrik Sigurður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
David Raya, aðalmarkvörður Brentford, meiddist illa gegn Leicester í leik í ensku úrvalsdeildinni um liðna helgi. Raya er með skaddað aftara krossband í hné og verður hann frá næstu mánuðina. Það gæti opnað tækifæri í liðinu fyrir landsliðsmarkvörðinn Patrik Sigurð Gunnarsson.

Patrik er í dag á láni hjá Viking Stavanger í Noregi frá Brentford. Patrik fékk rautt spjald fyrir tveimur umferðum síðan og var á bekknum í síðasta leik sem vannst 5-1. Viking hefur náð í níu stig í síðustu þremur leikjum svo ólíklegt verður að teljast að Patrik verði í liðinu í næsta leik.

Patrik var sendur á lán fyrir gluggalok í haust eftir að Brentford fékk Alvaro Fernandez á láni frá Huesca. Patrik var á varamannabekk Brentford gegn Arsenal í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar en hinn 23 ára Fernandez tók í kjölfarið sæti hans á bekknum og spilaði í fyrstu tveimur leikjum Brentford í deildabikarnum.

Brentford mætir Stoke í enska deildabikarnum í kvöld og má búast við því að Fernandez verji mark liðsins. Liðið mætir svo Burnley í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. Fernandez er sem stendur eini leikfæri markvörður í aðalliði félagsins. Félagið er þó með tvo á láni, þar á meðal Patrik Sigurð Gunnarsson, og tvo í B-liði sínu. Football.London fjallar um málið og segir að hinn átján ára Matthew Cox verði líklega varamarkvörður Fernandez þar til Raya snýr aftur.

Það gæti því farið svo að Thomas Frank, þjálfari Brentford, kalli Patrik Sigurð til baka til að veita Fernandez samkeppni. Hvort það sé hægt nú strax eða þurfi að bíða þangað til félagaskiptaglugginn í janúar opnar verður að koma í ljós.

Fótbolti.net hafði samband við Magnús Agnar Magnússon, umboðsmann Patriks, og sagði hann það í skoðun hvort Brentford megi kalla Patrik til baka á þessum tímapunkti. Lánssamningur Patriks er til áramóta.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner