Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 28. mars 2023 13:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Weghorst spurður: Hefðiru skorað ef leikurinn hefði haldið áfram í 48 tíma?
Weghorst
Weghorst
Mynd: Getty Images
Gullit
Gullit
Mynd: Getty Images
Wout Weghorst fékk á sig talsverða gagnrýni fyrir frammistöðu sína gegn Gíbraltar með Hollandi í gær. Holland vann 3-0 sigur en Weghorst tókst ekki að skora. Hollendingar voru, alls ekki óvænt, með mikla yfirburði í leiknum og áttu alls 51 skot að marki andstæðinganna.

Það þurfti þó tvö mörk frá varnarmanninum Nathan Ake til að innsigla sigurinn. Weghorst spilaði allan leikinn og var til viðtals eftir leikinn í gær.

Hann var spurður af blaðamanni ESPN í Hollandi: „Wout, ímyndaðu þér að við hefðum haldið þessum leik áfram í 48 tíma til viðbótar. Hefðiru skorað mark?"

„Góð spurning. Ég hefði allavega fengið meiri tíma. Ég gerði mitt besta, en tíminn rann út. Það voru nokkrar stöður þar sem ég var nálægt. Þetta er bara mjög lélegt. Óheppni? Hvort sem þetta snýst um óheppni eða ekki, þá snýst þetta að lokum um gæði. Maður verður að vera hreinskilinn með það líka," sagði Weghorst.

Weghorst hefur byrjað alla leiki hjá Manchester United eftir komu sína frá Besiktas í janúar. Leikirnir eru átján og mörkin eru tvö. Hann byrjaði báða leikina hjá Hollandi í glugganum, þekkir ekkert annað. Ruud Gullit, goðsögn í hollenskum fótbolta, gagnrýndi frammistöðu Weghorst í gær.

„Ég horfi alltaf á hann á skrítinn hátt. Ég er mikill aðdáandi en á sama tíma hugsa ég: hann er ekki nógu góður fyrir Manchester United og þá Appelsínugulu (hollenska landsliðið). Maður sér reglulega galla á hans leik," sagði Gullit.


Athugasemdir
banner
banner