Real Madrid vill tvo leikmenn Chelsea - Man Utd hefur áhuga á Vlahovic - Bernardo Silva íhugar að fara til Sádi-Arabíu næsta sumar
   mán 29. september 2025 18:08
Ívan Guðjón Baldursson
Leikmenn ÍR neita að spila áfram fyrir félagið
Kvenaboltinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: ÍR
Leikmenn kvennaliðs ÍR gáfu frá sér yfirlýsingu í gær um að þær munu ekki spila fyrir félagið á næsta ári eftir að þjálfarar meistaraflokks voru reknir.

Stelpurnar eru ósáttar með stjórnarhættina hjá fótboltadeild ÍR og virðist félagið þurfa að finna sér mikið af nýjum leikmönnum til að geta verið áfram með meistaraflokk á næsta ári.

„Í síðustu viku tilkynntu Egill (Sigfússon) og Kjartan (Stefánsson) okkur að stjórn knattspyrnudeildar ÍR hafi nýtt sér riftunarákvæði í samningum þeirra," segir í færslu frá meistaraflokk kvenna á Instagram. „Þessar fréttir voru kornið sem fyllti mælinn.

„Sinnuleysi, metnaðarleysi og virðingaleysið sem flokknum hefur verið sýnt hefur leitt til þess að við munum ekki spila fyrir ÍR á næstu leiktíð og snúum okkur til annarra félaga.

„Takk allir ÍR ingar sem hafa stutt okkur gegnum árin!"


Um klukkustund síðar gaf stjórn fótboltadeildar ÍR út yfirlýsingu.

„Stjórn knattspyrnudeildar ÍR vill upplýsa félagsmenn, leikmenn og stuðningsfólk um að unnið er hörðum höndum að því að styrkja og efla kvennastarf félagsins. Sjálfboðaliðar, stjórn og meistaraflokksráð vinna saman að því að skapa sem bestu umgjörð fyrir liðið til framtíðar," segir í færslu á Facebook.

„Nýr þjálfari meistaraflokks kvenna verður kynntur fljótlega og við hlökkum til að hefja nýtt og spennandi tímabil með okkar efnilegu og öflugu ÍR-ingum. Það eru sannarlega bjartir tímar framundan í Breiðholtinu."

ÍR endaði með 19 stig úr 17 umferðum í 2. deild kvenna í ár.



Athugasemdir
banner