Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fös 29. október 2021 23:56
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Telur sig eiga heima í efstu deild
Lengjudeildin
Birkir Valur Jónsson
Birkir Valur Jónsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lék átján leiki með HK í sumar.
Lék átján leiki með HK í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við höfðum klárlega mannskapinn og getuna til þess að gera betur
Við höfðum klárlega mannskapinn og getuna til þess að gera betur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Valur Jónsson verður 23 ára í næstu viku. Hann er hægri bakvörður HK sem féll úr Pepsi Max-deildinni í sumar. Það var ljóst eftir tap gegn Breiðabliki í lokaumferð og sigur ÍA gegn Keflavík.

Fótbolti.net ræddi við Birki Val í gær og spurði hann út í tímabilið og framtíðina. Hann segist hafa heyrt af því að önnur félög hafi spurst fyrir um sig en hann sé samningsbundinn HK.

HK náði aldrei að tengja saman sigra í sumar, liðið vann fimm leiki, gerði fimm jafntefli og endaði stigi á eftir Keflavík og ÍA

Náðist aldrei upp sama stemning og síðustu ár
Hver fannst þér vera ástæðan fyrir ekki betra gengi en raun varð í sumar?

„Mér fannst við framan af tímabilinu spila vel en náðum einhvern veginn aldrei að komast á neina siglingu í sumar. Við náðum ekki að láta þessi litlu atriði falla með okkur og eftir því sem leið á tímabilið minnkaði sjálfstraustið í liðinu," sagði Birkir.

„Við áttum í erfiðleikum með að skora, brenndum af nokkrum vítum á mikilvægum augnablikum, fengum á okkur alltof mikið af aulamörkum, og einhvern veginn náðist aldrei upp sama stemning og síðustu tvö ár. Við höfðum klárlega mannskapinn og getuna til þess að gera betur."

Náði sér ekki alveg í gang eftir að hafa fengið COVID
Birkir lék átján leiki í sumar. Hvernig fannst þér þín eigin frammistaða?

„Ég var þokkalega sáttur við tímabilið hjá mér en ég, eins og allir í liðinu, hefði getað gert töluvert betur. Ég byrjaði vel en meiðist strax í öðrum leik og missti úr nokkra leiki og svo tók nokkra leiki í viðbót að komast almennilega í gang aftur."

„Svo fæ ég COVID í september og náði mér ekki alveg í gang síðustu leikjunum eftir það. En um miðbik mótsins var ég nokkuð sáttur við frammistöðuna."


HK ræður ferðinni
Birkir Valur var viðloðinn U21 árs landsliðið, var tvisvar á bekknum í undankeppninni, sem fór á EM í mars og lék tvo leiki undir stjórn Eyjólfs Sverrissonar árið 2018. Seinni hluta síðasta árs lék hann með Spartak Trnava í Slóvakíu.

Hvernig lítur framtíðin út fyrir þér, kemur til greina að spila með HK í næstefstu deild eða viltu spila í efstu deild?

„Ég er samningsbundinn HK og á eitt ár eftir af mínum samningi þannig að HK ræður ferðinni um hvað gerist í mínum málum. Ég hef að sjálfsögðu mikinn metnað og vilja til þess að spila í efstu deild því ég tel mig eiga heima þar. Næsta keppnistímabil verður líklega mjög spennandi í deildinni með tvískiptingu deildarinnar og fleiri leikjum og mig langar að taka þátt í því. Ef ekki á næsta ári þá a.m.k. á þar næsta ári."

Mun ræða við HK um sín mál og framtíðina
Hefuru rætt við HK og jafnvel önnur félög eftir tímabilið?

„Samkvæmt samningi má ég ekki ræða við önnur félög nema með leyfi frá HK. Mér skilst að einhver félög hafi spurst fyrir um stöðuna hjá mér hjá HK, en ég hef ekkert staðfest um það. Ég mun á næstu dögum ræða við HK um mín mál og framtíðina," sagði Birkir að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner