Valið hjá Man Utd er milli Solskjær og Carrick - Newcastle fær samkeppni frá Spurs um Strand Larsen - Lewandowski vill ekki fara
   þri 06. janúar 2026 21:58
Ívan Guðjón Baldursson
England: Ótrúlega dýrmætur sigur fyrir Forest
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
West Ham 1 - 2 Nottingham Forest
1-0 Murillo ('13 , sjálfsmark)
1-1 Nicolas Dominguez ('55 )
1-2 Morgan Gibbs-White ('89, víti)

West Ham United og Nottingham Forest áttust við í fallbaráttuslag í eina leik kvöldsins í ensku úrvalsdeildinni. Taty Castellanos er nýkominn til West Ham og leiddi hann sóknarlínuna en tókst ekki að skora.

Forest fékk fyrsta færi leiksins en Alphonse Areola gerði vel að verja, Hamrarnir tóku forystuna skömmu síðar eftir hornspyrnu. Murillo skallaði boltann þá í eigið net.

Staðan var 1-0 eftir mjög bragðdaufan fyrri hálfleik og byrjaði seinni hálfleikurinn afar líflega.

West Ham kom boltanum í netið í upphafi síðari hálfleiks en ekki dæmt mark eftir athugun í VAR-herberginu. Castellanos var naumlega rangstæður í aðdragandanum.

Gestirnir frá Nottingham voru fljótir að refsa með marki frá Nicolás Domínguez sem skallaði hornspyrnu frá Elliot Anderson í netið. Staðan orðin 1-1 eftir 55 mínútur.

Leikurinn róaðist niður við jöfnunarmarkið. Bæði lið komust í fínar stöður og fengu hálffæri en tókst ekki að skapa mikla hættu fyrr en á lokamínútunum. Fyrstu tvö mörk leiksins komu eftir hornspyrnur og í þetta skiptið gerðist Areola sekur um slæm mistök í markinu hjá West Ham.

Hann kom af marklínunni til að kýla boltann í burtu en kýldi þess í stað andstæðing sinn. Boltinn var skallaður burt frá markinu en vítaspyrna dæmd eftir að VAR-herbergið sendi Tony Harrington í skjáinn. Morgan Gibbs-White steig á vítapunktinn og skoraði.

Hamrarnir sóttu í uppbótartímanum en höfðu ekki erindi sem erfiði. Lokatölur 1-2 fyrir Forest sem er núna sjö stigum frá fallsæti með 21 stig.

West Ham situr eftir í fallsæti með 14 stig eftir 21 umferð. Forest er næsta lið fyrir ofan.
Athugasemdir
banner
banner
banner