Líkur Manchester United á að komast í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eru sáralitlar eftir að liðið kastaði frá sér sigrinum í 3-3 jafnteflinu gegn Galatasaray í kvöld.
Alejandro Garnacho mætti fullur sjálfstrausts inn í leikinn eftir að hafa skorað flottasta mark ársins í ensku úrvalsdeildinni gegn Everton á sunnudag.
Það tók hann tæpar ellefu mínútur að koma United í 1-0 gegn Galatasaray. Eftir gott spil United fyrir utan teig tyrkneska liðsins, var það Bruno Fernandes sem lagði hann vinstra megin í teiginn á Garnacho sem setti hann efst í nærhornið.
United-menn voru á góðu róli og gerði Fernandes annað markið sjö mínútum síðar með frábæru skoti fyrir utan teig. Gestirnir fengu tækifæri til að komast í 3-0 en Luke Shaw fór þá illa að ráði sínu eftir samspil með Rasmus Höjlund.
Mínútu síðar minnkað Hakim Ziyech muninn úr aukaspyrnu. André Onana, markvörður United, stóð hreyfingarlaus á línunni og má setja spurningarmerki við hann í aukaspyrnunni. Ziyech leyfði sér þó að fagna.
Heimamenn reyndu að ná i jöfnunarmark fyrir hálfleik og komu þeir boltanum í netið er Mauro Icardi skoraði, en hann var dæmdur rangstæður. Hluti af öxl hans var fyrir innan og markið dæmt af.
United náði aftur tveggja marka forystu þegar tíu mínútu voru búnar af síðari. Aaron Wan-Bissaka kom með góða fyrirgjöf á nærstöng á Scott McTominay sem gerði þriðja markið.
Enska liðið náði ekki að halda þeirri forystu lengi. Á 62. mínútu skoraði Ziyech annað aukaspyrnumark og aftur var Onana í vandræðum. Skotið var ekki sérstaklega gott og virtist þetta vera auðveldur bolti fyrir Onana, en svo var greinilega ekki, því kamerúnski markvörðurinn missti boltann inn fyrir línuna. Skelfileg mistök.
Galatasaray pressaði á United í kjölfarið og uppskar jöfnunarmark níu mínútum síðar. Það virkaði frekar auðvelt allt saman. Kerem Akturkoglu fékk boltann inn fyrir og þrumaði boltanum á markið á varnalausan Onana og í netið.
United fékk nokkur frábær færi til að gera sigurmarkið. Bruno Fernandes átti skot í stöng og þá átti McTominay skot rétt framhjá markinu.
Lokatölur í Istanbúl 3-3 og afar svekkjandi úrslit fyrir United sem þarf nú kraftaverk til að komast áfram. Galatasaray er í öðru sæti A-riðils með 5 stig en United á botninum með 4 stig. United mætir toppliði Bayern München á Old Trafford í lokaumferðinni.
PSV vann Sevilla, 3-2, eftir magnaða endurkomu. Sergio Ramos skoraði 16. Meistaradeildarmark sitt á 24. mínútu og er hann nú markahæsti varnarmaður keppninnar frá upphafi ásamt þeim Gerard Pique og Roberto Carlos.
Youssef En-Nesyri bætti við öðru en PSV kom til baka í þeim síðari og má segja að Lucas Ocampos hafi verið skúrkurinn en hann fékk að líta rauða spjaldið á 62. mínútu og í kjölfarið komust PSV-menn til baka og jöfnuðu áður en Ricardo Pepi gerði sigurmarkið í uppbótartíma.
Lokatölur 3-2 fyrir PSV, sem getur komist áfram ef Arsenal vinnur Lens í kvöld.
A-riðill:
Galatasaray 3 - 3 Manchester Utd
0-1 Alejandro Garnacho Ferreyra ('11 )
0-2 Bruno Fernandes ('18 )
1-2 Hakim Ziyech ('29 )
1-3 Scott McTominay ('55 )
2-3 Hakim Ziyech ('62 )
3-3 Muhammed Kerem Akturkoglu ('71 )
B-riðill:
Sevilla 2 - 3 PSV
1-0 Sergio Ramos ('24 )
2-0 Youssef En-Nesyri ('47 )
2-1 Ismael Saibari ('68 )
2-2 Nemanja Gudelj ('82 , sjálfsmark)
2-3 Ricardo Pepi ('90 )
Rautt spjald: Lucas Ocampos, Sevilla ('66)
Athugasemdir