Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   fös 30. júlí 2021 13:16
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáð botninum en eru við toppinn - Alltaf markmiðið
Völsungur er í öðru sæti 2. deildar.
Völsungur er í öðru sæti 2. deildar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Bjarki Baldvinsson, fyrirliði.
Bjarki Baldvinsson, fyrirliði.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Sæþór Olgeirsson, markavél.
Sæþór Olgeirsson, markavél.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Getur Völsungur komist upp? Liðið er heldur betur búið að gera lítið úr spánni sem var gefin út fyrir tímabilið.
Getur Völsungur komist upp? Liðið er heldur betur búið að gera lítið úr spánni sem var gefin út fyrir tímabilið.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Völsungur hefur verið á miklu skriði í 2. deild karla. Liðið hefur unnið fimm leiki í röð og er heldur betur búið að blanda sér í baráttuna um að spila í Lengjudeildinni á næstu leiktíð. Fyrir tímabilið var liðinu spáð neðsta sæti 2. deildar.

Völsungur er núna í öðru sæti, þremur stigum frá toppliði Þróttar Vogum. Það eru átta umferðir eftir.

„Það er góð spurning," segir Bjarki Baldvnsson, fyrirliði Völsungs, spurður að því hvað sé að valda þessu góða gengi liðsins upp á síðkastið.

„Að mínu mati erum við bara með gott lið, sem hjálpar vissulega til við að vinna leiki. Þeir leikmenn sem komu fyrir tímabil eru líka komnir betur inn í hlutina og það styrkir okkur mikið, enda allt saman frábærir leikmenn."

Með níu stigum meira en í 20 leikjum í fyrra
Völsungur var með 17 stig í tíunda sæti þegar mótið var blásið af í fyrra, eftir 20 leiki. Liðið rétt hélt sér þá á lífi í deildinni, endaði með einu stigi meira en Víðir. Hvað hefur breyst frá því í fyrra?

„Ég held að það séu margir litlir hlutir. Við erum með aðeins betra lið en í fyrra, við byrjuðum vel og sjálfstraustið jókst. Samhliða því varð stemningin í hópnum betri. Þannig að ef einhverjir góðir vilja elta móralinn, eins og Stubbur vinur minn orðaði það, þá mæli ég með að koma á gömlu vík."

„En já, að mínu mati hefur ekkert stórt breyst, frekar margir litlir hlutir sem gera það að verkum að við erum að vinna fótboltaleiki sem við gerðum leiðinlega lítið af í fyrra. Ég hef samt trú á því að við getum gert enn betur spilalega séð þó svo að úrslitin hafi verið að detta í síðustu leikjum."

Lengjudeildin á næsta ári?
Völsungur spilaði síðast í Lengjudeildinni 2013, og endaði þá með tvö stig. Er það Lengjudeildin á næsta ári hjá Húsvíkingum?

„Við erum í góðum gír og auðvitað viljum við komast upp í Lengjudeildina, eins og önnur lið í deildinni. Við erum samt alveg rólegir og vitum að ef þú tapar tveimur leikjum í röð í þessari deild, getur þú fallið niður um fullt af sætum. Þó að margir trúi því eflaust ekki, enda spáð síðasta sæti, þá var markmiðið okkar alltaf að taka þátt í þessari baráttu um að fara upp. En, eins og ég segi þá er stutt á milli í þessu og við reynum að taka gömlu klisjuna á þetta og einbeita okkur bara að næsta leik."

Frábært að vera með Sæþóri í liði
Sæþór Olgeirsson, sóknarmaður Völsungs, er langmarkahæstur í deildinni með 15 mörk. Það er gaman að vera með honum í liði að sögn Bjarka.

„Það er frábært að vera með Sæþóri í liði," segir Bjarki en það eru ekki bara aðeins mörkin sem skipta máli hvað það varðar.

„Hann fær auðvitað mikið af fyrirsögnum því hann getur ekki hætt að skora en það sem fyrirsagnirnar segja ekki er að hann hleypur manna mest í hverjum einasta leik og vinnur fyrir liðið í 90 mínútur. Við skulum nú ekki hrósa honum of mikið samt, hann hefur fengið alveg nóg af hrósi í sumar," segir Bjarki léttur og bætir við:

„Annars er gott að spila með öllum þessum meisturum í þessu liði. Mjög margir hafa stigið vel upp í sumar, þar á meðal ungir heimastrákar sem við á Húsavík elskum að sjá."

Benídorm veður og fótboltasigrar
Það er mjög gaman að vera á Húsavík í sumar; frábært veður og fótboltaliðunum gengur vel. Kvennalið Völsungs er í toppbaráttunni í 2. deild kvenna líka.

„Það er mjög gaman á Húsavík þessa dagana, búið að vera Benídorm veður í allt sumar og við loksins að vinna fótboltaleiki. Eins og eflaust annars staðar, þá verður áhuginn og stemningin skiljanlega töluvert betri gagnvart boltanum í bæjarfélaginu þegar vel gengur," segir Bjarki.

Næsti leikur Völsungs er toppbaráttuslagur gegn KF; sannkallaður sex stiga slagur í baráttunni.

„Auðvitað ætlum við að halda sigurgöngunni áfram enda förum við í alla leiki til að vinna þá, eins og flest önnur fótboltalið í heiminum. KF er hins vegar með alvöru lið og við verðum að mæta tilbúnir í þann leik til að fara heim með stigin þrjú," segir Bjarki Baldvinsson, fyrirliði Völsungs.

Sjá einnig:
Spá þjálfara í 2. deildinni: 12. sæti
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner