Smith Rowe og Nelson á förum - Chelsea náði samkomulagi við Aston Villa - Úrvalsdeildarfélög keppast um Abraham - Arsenal vill Nico Williams -...
   fim 02. júní 2011 11:00
Sammarinn.com
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Paul Scholes scored goals
Gunnar Birnir Jónsson skrifar
Sammarinn.com
Sammarinn.com
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Fyrirsögn þessarar greinar hefur hljómað á pöllum Old Trafford oft og mörgum sinnum. Hefur Paul Scholes enda skorað þau nokkur í gegnum tíðina. Nánar tiltekið skoraði hann 150 mörk fyrir Manchester United en nú er ljóst að þau verða ekki fleiri, því nú hefur þessi snillingur ákveðið að leggja skóna á hilluna margfrægu en mun þó starfa áfram hjá klúbbnum sem þjálfari.

Er því gott tilefni til að líta nánar á feril þessa frábæra, en oft vanmetna, leikmanns. (Þessi grein hefur birst áður en er uppfærð)

Paul Aaron Scholes fæddist í Salford (Greater Manchester) 16. nóvember 1974. Hann flutti ungur ásamt fjölskyldunni til Langley í Middleton (í hinum enda bæjarins) og spilaði þar í skólaliðinu. Hann spilaði ásamt Neville bræðrum og Nicky Butt fyrir Boundary Park Juniors (lið á vegum Oldham Athletic) frá 11 ára aldri. Fyrstu og einu félagaskipti Scholes gerði hann 14 ára gamall þegar hann gekk til liðs við Manchester United. Allt til dagsins í dag spilaði hann á Old Trafford, aðeins um 4 km þaðan sem hann fæddist.

Scholes var ekki hluti af hinu margfræga unglingaliði United sem vann FA Youth Cup árið 1992. Hann var hinsvegar í liðinu sem komst í úrslit árið eftir og hann var einnig í enska U-18 liðinu sem varð Evrópumeistari 1993. Ólíkt mörgum félaga sinna fór hann aldrei á lán til annars liðs. Hann fékk sitt fyrsta tækifæri seinna en Beckham, Neville, Butt ofl. en vann sér fast sæti í liðinu strax á sínu fyrsta tímabili, 1994-95. Leiktíðin sem kom á eftir var tími ungu strákanna og var Scholes þar lykilmaður.

Á þessum tíma spilaði hann einkum sem framherji og leysti hann m.a. Cantona, sem var í banni, af hólmi fyrstu tvo mánuði tímabilsins. Festist fljótlega við hann viðurnefnið The Ginger Prince, þar sem menn þóttust sjá í honum arftaka Le King. Tímabilið 1996-97 var þó búið að færa hann alfarið aftur á miðjuna þar sem leikskilningur hans og sendingar nýtast betur. Þar með varð Paul Scholes aðal arkitekt sóknarleiks Manchester United og var hann það í á annan áratug.

Það er í sjálfu sér óþarfi að telja upp afrek hans síðan þá. Hann er m.a. tífaldur Englandsmeistari og tvöfaldur Evrópumeistari, m.ö.o. hann hefur unnið allt það sem United hefur unnið síðan 1995 (að einum deildarbikar undanskildum). Allir sem fylgjast eitthvað með fótbolta ættu að hafa heyrt um Scholes og ef þú vissir einhverntíma hvar og hvernig hann spilaði, þá vissiru það alltaf.

Það leiðir þá að spurningunni: Af hverju segi ég að Scholes hafi oft verið vanmetinn? Hefði þessi grein verið skrifuð fyrir ári síðan hefði ég reyndar líklega sleppt orðinu „oft“.

Það er hinsvegar kannski ekki alveg rétt heldur að segja að Paul Scholes sé beint vanmetinn leikmaður. Kannski mætti frekar segja að hann sé leikmaður sem mönnum iðulega sést yfir, taka ekki eftir, tala ekki um, þ.e. þangað til undir það síðasta. Þannig var hann valinn leikmaður ágústmánaðar á þessu tímabili í aðeins fjórða skiptið á ferlinum.

Hvað er þá málið? Jú, hann er engu að síður leikmaður sem hefur í gegnum tíðina ekki alveg fengið þá viðurkenningu sem hann á skilið (að mér finnst). Það þarf samt líklega að útskýra það eitthvað.

Paul Scholes hefur verið lykilmaður í sigursælasta liði síðustu 15 ára, líklega einu sigursælasta liði allra tíma. Flest þessara tímabila hefur hann verið einn besti ef ekki besti maður liðsins. Hann var lykilmaður í enska landsliðinu um tíma (valinn bestur þar 1999 og besti leikmaður þeirra á HM 2002). Svo miklu máli virðist hann raunar hafa skipt fyrir liðið að tveir síðustu þjálfarar hafa beðið hann um að koma aftur, nú síðast fyrir HM 2010, þrátt fyrir að vera þá 35 ára, og aftur að því er virðist fyrir forkeppni EM síðasta haust.

Þegar upp eru taldir bestu leikmennirnir er Scholes samt sjaldan eða aftarlega á lista. Er hann yfirleitt talinn upp á eftir mönnum eins og Cantona, Beckham, Keane, Nistelrooy, Giggs, Rooney, Ronaldo o.s.frv. o.s.frv (nú jafnvel Hernández) og þá er ég bara að tala um lið Manchester United á hans tíma þar. Á öllum sínum árum í deildinni var Scholes aðeins fjórum sinnum valinn leikmaður mánaðarins og þrisvar í lið ársins. Samt var hann valinn í 11 manna lið fyrsta áratugar úrvalsdeildarinnar og er einn örfárra leikmanna sem hafa verið valdir English Football Hall of Fame meðan þeir enn spila. Hann hefur aldrei verið nálægt því að vinna nein persónuleg verðlaun á stærra sviði.

Fyrir þessu tel ég vera nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi er Scholes svona „no bullshit“ leikmaður. Hann er ekki að taka skæri, snúninga eða hælspyrnur að óþörfu. Hann sólar ekki 10 leikmenn eða fagnar mörkum með heljarstökki. Afhverju? Einfaldasta svarið væri líklega að hann þarf þess ekki, annað að hann hafi engan áhuga á því að láta á sér bera. Þú þarft ekki að gera allar æfingarnar ef þú getur verið búinn að taka við boltanum og koma honum áfram áður en andstæðingurinn kemst í þig. Þú þarft ekki að sóla þig upp völlin ef þú getur tekið þríhyrningaspil, hlaupið í eyður, sent 40 metra sendingu beint í fætur samherja o.s.frv. Fyrir vikið er auk þess mun ólíklegra að þú missir boltan. Leikstíll sem þessi vekur þó kannski síður athygli en sá fyrrnefndi.

Í öðru lagi og sem ég tel vega þyngra þá er Scholes mjög hæglátur maður, bara svona venjulegur gaur. Hann er giftur æskuástinni, á tvö börn, býr og vinnur þar sem hann ólst upp. Það bara vill svo til að hann vinnur við að spila fótbolta og vinnan er eitt stærsta félagslið heims. Sjálfur lýsir hann góðum degi svona: Æfa um morguninn, sækja börnin í skólann, fara heim, leika við börnin, borða kvöldmat, koma þeim í háttinn og horfa svo aðeins á sjónvarpið áður en ég fer að sofa.

Hann hefur ekki lent í neinum skandölum eða verið á forsíðum slúðurblaðanna. Hann leikur ekki í auglýsingum, fer helst ekki í viðtöl og vill bara fá að lifa eðlilegu lífi utanvallar. Hann hefur ekki einusinni umboðsmann þar sem hann hefur engann áhuga á því að fara annað. Sem dæmi má nefna að hans eini „auglýsinga“ samningur – skósamningur við Nike – er merkilegur fyrir það að honum fylgja engar kvaðir. Hann er eini leikmaðurinn á slíkum samning sem aldrei er beðinn um að kynna vöruna opinberlega, leika í auglýsingum o.þ.h. Samkvæmt talsmanni Nike eru þeir bara ánægðir með að geta tengt vöruna við hann, Scholes sé svolítið feiminn og það sé bara allt í lagi.

Allt ofangreint hefur valdið því að Scholes er ekki, hefur aldrei verið og mun aldrei verða alvöru stórstjarna í boltanum. Tel ég nokkuð öruggt að ef hann hefði verið seldur (og þá líklega fyrir nokkuð fé) væri hann mun frægari fyrir vikið. Orðspor leikmanna virðist nefninlega oft nokkuð tengt verðmiðanum á þeim. Á Scholes er hinsvegar enginn verðmiði, hann er ekki til sölu, vill ekki vera seldur og það vita það allir. Ef hann hefði tekið boðum um að leika í auglýsingum, haldið framhjá allavega einu sinni eða lamið einhvern fyrir að spila ekki Phil Collins þá væri hann klárlega frægari, ríkari og já, vinsælli (þá er ég ekki að meina betur liðinn, sem er ekki endilega það sama).

Þegar fólk talar um leikmenn talar það eðlilega bara um það sem það man eftir og þú manst eftir þeim sem var á forsíðunni í gær. Sömuleiðis eru einstaklingsverðlaun bara vinsældakosning, það er bara þannig. Ef það væri ekki þannig myndu varnarmenn og markmenn kannski stundum vinna en þeir eru að öllu jöfnu ekki jafnvinsælir. Auðvitað er samt alltaf matsatriði hver er bestur og það má vel vera að Scholes hafi aldrei verið bestur, en hann var (og er) með þeim allra bestu. Fáir hafa meiri leikskilning en Scholes og fáir hafa meira vald á sendingum eða halda bolta jafnvel og hann. Hann lærði að vísu aldrei að tækla en guð minn góður kann hann að skjóta!

Kostir Scholes sem ég hef talið hér upp (á einstaklega hlutlægan hátt) hafa ekki farið framhjá leikmönnum og þjálfurum sem hafa spilað með honum og á móti, þar er hann ekki vanmetinn. Læt ég að lokum nokkur dæmi um ummæli um kappann fylgja sem bera þess merki að þrátt fyrir að vera aðeins 170 cm hár líta kollegar Paul Scholes samt upp til hans.

„Ég hef sagt það áður og segi það við alla sem spyrja mig: Scholes er besti leikmaður Englands. Gáfurnar, tæknin, styrkurinn... allt er til staðar. Hjá Manchester United sá ég á æfingasvæðinu hvað hann getur. Vá!“ – Laurent Blanc.

„Paul Scholes væri minn fyrsti kostur ef ég ætti að setja saman frábært lið. Það sýnir hve mikils ég met hann. Hann hefði verið fyrsti leikmaðurinn sem ég hefði keypt ef ég hefði haft tækifærið.“ - Marcello Lippi.

„Það kemur kannski á óvart en það er Scholes því ég vissi ekkert hvernig ætti að dekka hann. Þessi gaur er mjög snjall, hann getur tekið eina snertingu, tvær snertingar svo það er verulega erfitt að ná af honum boltanum. Hann er erfiðasti andstæðingur sem ég hef mætt því þegar þú hefur náð honum þá er boltinn farinn.“ - Steffen Effenberg um erfiðasta andstæðinginn.

„Án nokkurs vafa er það Paul Sholes, miðjumaður Man United. Hann veit hvernig á að gera allt og sendir boltann eins og liðið spilar. Ofan á það hefur hann óbilandi andlegan styrk og mikinn keppnisanda. Ég skil ekki hvers vegna Scholes hefur aldrei verið valinn leikmaður ársins. Hann á að vera búinn að vinna þau verðlaun fyrir löngu. Kannski er það vegna þess að hann sækist ekki eftir sviðsljósinu eins og sumar aðrar stjörnur.“ - Thierry Henry um hver sé besti leikmaður deildarinnar.

„Ef þú myndir biðja fótboltamenn um að velja leikmann sem þeir líta upp til þá myndu margir velja Paul Scholes. Hann getur tæklað og sendingar hans og skot eru í hæsta gæðaflokki. Hann samsvarar sig vel og hefur meiri náttúrulega hæfileika en nokkur annar sem við höfum átt í langan tíma.“ - Alan Shearer.

„Ég er meiri aðdáandi Paul Scholes en Ronaldo. Ronaldo er frábær leikmaður en hann hefur tíu frábæra leikmenn kringum sig í hverri viku. Scholes er einn fullkomnasti leikmaður sem ég hef séð. Einnar snertingar-bolti hans er undraverður. Í hvert sinn sem ég hef mætt honum hefur mér aldrei fundist ég komast nálægt honum.“ - Eiður Smári Guðjohnsen.

„Allir miðjumenn reyna að verða eins góðir og hann. Allir geta lært af Paul Scholes." og „Ég er ekki sá besti. Paul Scholes er það." - Edgar Davids.

„Hann er í gæðaflokki sem ég stefni á að komast á. Hann er besti leikmaður úrvalsdeildarinnar." - Cesc Fabregas.

„Sá leikmaður í úrvalsdeildinni sem ég dái mest? Auðveld spurning - Scholes." - Patrick Vieira.

„Það sem United hefur en Chelsea ekki er Paul Scholes. Ég tel hann vera öðruvísi en allir aðrir í ensja boltanum." - Kevin Keegan.

„Jafnvel hjá Real Madrid voru leikmenn alltaf að spyrja mig hvernig hann væri. Þeir virða hann sem fótboltamann og að hafa virðingu frá þessum mönnum er magnað." - David Beckham.

„Í mínum huga er það Paul Scholes. Hann gerir ótrúlega hluti á æfingum eins og að segja: „Sérðu tréð þarna?" og það er staðsett 35 metra í burtu. „Ég ætla að hitta í það" og svo gerir hann það. Allir hjá félaginu álíta hann bestan." - Rio Ferdinand.

„Minn erfiðasti andstæðingur? Scholes hjá Manchester. Hann er fullkominn miðjumaður," og „Scholes er án nokkurs vafa besti miðjumaður sinnar kynslóðar." - Zinedine Zidane.

„Fyrirmynd mín og ég meina það. Hann hefur allt, síðustu sendinguna, mörkin, hann er sterkur, missir ekki boltann og er með yfirsýn. Ef hann væri spænskur væri hann kannski enn meira metinn. Leikmenn elska hann." - Xavi í febrúar 2011.

„Paul Scholes er uppáhalds leikmaður minn. Hann endurspeglar anda Manchesrer United og allt sem er gott við fótboltann." - Sir Bobby Charlton.

„Þú gleymdir Paul Scholes - og hann er besti leikmaður minn." - Sir Alex Ferguson eftir að hafa heyrt nöfn bestu leikmanna United undir hans stjórn lesin upp.

Roy Keane hraunaði yfir flesta í ævisögu sinni. Þegar kom að því að lýsa félaga sínum Paul Scholes hafði hann bara þetta að segja: „Ekkert frægðarkjaftæði og athyglissýki - ótrúlega hæfileikaríkur leikmaður sem hélt áfram að vera venjuleg manneskja."

Leyfum manninum sjálfum að eiga síðasta orðið:

„Ég er ekki maður margra orða en ég get í hreinskilni sagt að ég hef alltaf viljað spila fótbolta og það er mikill heiður að hafa átt svona langan og farsælan feril hjá Manchester United. Þetta var ekki auðveld ákvörðun en ég tel að nú sé rétti tíminn til að segja þetta gott. Það eru forréttindi að hafa fengið að vera hluti af liðinu sem vann nítjánda meistaratitilinn." - Paul Scholes, 31.05.2011.
banner
banner
banner
banner