Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 20. janúar 2019 22:30
Ívan Guðjón Baldursson
Higuain á leið til Chelsea - Ekki í hóp hjá Milan á morgun
Mynd: Getty Images
Gonzalo Higuain er að öllum líkindum á leið frá AC Milan í mánuðinum en hann er ekki í leikmannahópi Milan sem mætir Genoa annað kvöld.

Gennaro Gattuso, þjálfari Milan, segist vera búinn að sætta sig við ákvörðun Higuain um að yfirgefa félagið. Argentínski sóknarmaðurinn er hjá Milan á láni frá Juventus.

Higuain er 31 árs gamall og vill ólmur fá að sanna sig í ensku deildinni eftir að hafa gert frábæra hluti í spænska og ítalska boltanum.

Chelsea er á höttunum eftir sóknarmanni þar sem Alvaro Morata hefur ekki verið að standa sig og Olivier Giroud ekki tekist að vinna sér inn byrjunarliðssæti.

„Ég vil vera heiðarlegur við ykkur, við áttum ömurlegan dag. Ég spjallaði við Gonzalo eftir æfingu og komst að því að hann er ekki tilbúinn til að halda áfram með okkur," sagði Gattuso.

„Ég sætti mig við hans ákvörðun en er skilinn eftir með óbragð í munni. Hann hefði vissulega getað lagt meira á sig fyrir okkur og við hefðum kannski getað hjálpað honum meira í aðlögunarferlinu."

Higuain er aðeins búinn að skora 8 mörk í 22 leikjum með Milan á tímabilinu og er liðið í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti.

Higuain skoraði 36 mörk í 35 deildarleikjum með Napoli undir stjórn Maurizio Sarri, sem vill ólmur fá hann til Englands.
Athugasemdir
banner
banner