mið 12. júní 2019 16:34
Fótbolti.net
Kallað eftir hlaupatölum Gylfa - „Ætli hann komist að altarinu?"
Icelandair
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Gylfi Þór Sigurðsson, besti fótboltamaður Íslands, fékk mikið lof fyrir framlag sitt í sigurleikjunum gegn Albaníu og Tyrklandi. Í Innkastinu eftir leikinn í gær var rætt um gæði og vinnusemi Gylfa í landsliðsbúningnum.

„Eftir þennan sigur geta menn húrrað sér til Ítalíu og horft á Gylfa giftast henni Alexöndru. Það er að segja ef Gylfi kemst upp að altarinu! Ég veit ekki hvort hann eigi orkupunkt eftir þessar 180 mínútur sem hann gaf Íslandi. Gæti ég fengið að sjá hlaupatölurnar hjá þessum manni?" sagði Tómas Þór Þórðarson íþróttafréttamaður á léttan hátt.

Gylfi er að fara að gifta sig um helgina en brúðkaupið verður á Ítalíu.

„Með því að vera besti fótboltamaðurinn, og stjarnan í liðinu, þá sér maður að hann fær aðeins öðruvísi viðbrögð frá dómurunum en flestir aðrir leikmenn. Hann getur bent dómurum á það sem betur mætti fara og þeir dæma það næst," sagði Elvar Geir og Tómas Þór tók undir.

„Hann er á 'stórstjörnuafslættinum'. Hann er klókur en heiðarlegur leikmaður. Hann fær klárlega aukaspyrnur sem aðrir eru ekki að fá," sagði Tómas.

Ísland vann leikinn í gær 2-1 og eru með níu stig í undankeppni EM en fjallað var um allt sem leiknum tengist í Innkastinu.


Athugasemdir
banner
banner