Liam Rosenior þjálfari Strasbourg var spurður út í framtíðaráform sín eftir 1-1 jafntefli við Nice í frönsku deildinni í gær.
Strasbourg er systurfélag Chelsea, í eigu sama eigendahóps, og er Rosenior talinn langlíklegasti arftaki Enzo Maresca í stjórastarfinu hjá Chelsea.
„Ég veit að þeir eru að leita sér að þjálfara og þetta er augljóslega systurfélagið okkar, en ég hef ekki rætt við neinn. Ég er bara einbeittur að því að gera vel fyrir Strasbourg útaf því að þetta félag hefur gefið mér svo mikið. Svo mikið af góðum minningum og stundum. Leikmennirnir og stuðningsmennirnir eru stórkostlegir, þetta er frábær borg," sagði Rosenior eftir jafnteflið.
„Mér finnst það vera virðingarleysi að spyrja út í þetta mál beint eftir fótboltaleik hjá Strasbourg sem endaði með jafntefli. Ég endurtek það sem ég hef sagt áður: Ef eitthvað gerist, þá gerist það. Eins og staðan er núna hefur ekkert gerst. Ég veit að það er mikil umfjöllun um þetta, ég þyrfti að vera geimvera til að hafa ekki tekið eftir því. Ég veit ekki hvort þetta sé minn síðasti leikur, þannig er lífið. Maður veit aldrei hvað getur gerst."
Rosenior var spurður hvort hann hefði einhver áform um að horfa á Chelsea spila næstu leiki við Manchester City og Fulham en hann svaraði því neitandi
Gary Cotterill fréttamaður Sky Sports er staddur úti í Strasbourg og spurði Rosenior út í orðrómana. Hann segir það hafa verið nokkuð augljóst eftir jafnteflisleikinn gegn Nice að Rosenior væri að kveðja samstarfsmenn sína.
„Hann faðmaði hvern einasta þjálfara í teyminu sínu og hvern einasta leikmann úr liðinu eftir leikinn. Svo fór hann til stuðningsfólks og veifaði til þeirra 300 stuðningsmanna sem fylgdu liðinu til Nice," segir Cotterill.
„Næsta æfing hjá Strasbourg er á mánudaginn en verður Rosenior á svæðinu?"
Athugasemdir



