Bandaríska félagið Charlotte FC er að reyna að krækja í Harvey Elliott á lánssamningi frá Englandsmeisturum Liverpool.
Ef Elliott samþykkir að ganga til liðs við félagið þarf Charlotte að losa sig við Liel Abada til að skapa pláss fyrir Elliott.
Abada er ísraelskur kantmaður sem var lykilmaður í liði Skotlandsmeistara Celtic áður en Charlotte festi kaup á honum fyrir um 10 milljónir punda fyrir tæpum tveimur árum síðan.
Abada er ekki með fast byrjunarliðssæti í liði Charlotte en hann er meðal launahæstu leikmanna félagsins.
Championship félögin Coventry og Swansea eru meðal áhugasamra félaga samkvæmt heimildum Sky Sports, en þar er einnig tekið fram að fleiri félög í deildinni séu áhugasöm um leikmanninn. Félögin vilja fá Abada á lánssamningi með kaupmöguleika.
Abada kom að 51 marki í 112 leikjum á dvöl sinni hjá Celtic. Hann er 24 ára gamall og á 18 leiki að baki fyrir ísraelska landsliðið.
Hann á aðeins 12 mánuði eftir af samningi sínum við Charlotte, en félagið er með ákvæði um að framlengja samninginn um eitt ár.
Abada er með 13 mörk og 4 stoðsendingar í 66 keppnisleikjum með Charlotte.
02.01.2026 18:00
Harvey Elliott býðst að fara í MLS deildina
Athugasemdir




