Luke O'Nien er 31 árs varnarmaður sem hafði verið fastamaður í byrjunarliði Sunderland í sjö ár áður en félagið endurheimti sæti í ensku úrvalsdeildinni.
Hann hefur verið að glíma við meiðsli á tímabilinu og hefur því lítið sem ekkert spilað í úrvalsdeildinni, en hann var mikilvægur hlekkur er Sunderland kom sér upp úr Championship deildinni í fyrra.
O'Nien var á varamannabekknum þegar Sunderland tók á móti stórveldi Manchester City á nýársdag en liðin gerðu markalaust jafntefli.
O'Nien var búinn að blanda sér í einhver rifrildi þegar mönnum hitnaði í hamsi eftir lokaflautið og endaði hann á að rífast við Gianluigi Donnarumma, markvörð Man City og ítalska landsliðsins.
Það náðust nokkrar myndir af rifrildunum og ákvað O'Nien að birta eina þeirra á Instagram síðu sinni.
„Fallega gert af stóra manninum þeirra að hlaupa lengd vallarins til að bjóða mér gleðilegt nýtt ár. Topp maður," skrifaði O'Nien sem myndatexta.
Þessi færsla hefur vakið talsverða athygli meðal fótboltaáhugamanna á Englandi.
Athugasemdir




