Salah aftur til Roma - Bruno Fernandes á förum? - Sterling til West Ham - Goretzka í enskt stórlið?
banner
   fös 02. janúar 2026 23:40
Ívan Guðjón Baldursson
Glasner: Var ekki nógu ákafur síðasta sumar
Glasner hefur gert magnaða hluti á stuttum tíma hjá Crystal Palace.
Glasner hefur gert magnaða hluti á stuttum tíma hjá Crystal Palace.
Mynd: EPA
Hann stýrði liðinu til síns fyrsta titils í afar langri sögu félagsins.
Hann stýrði liðinu til síns fyrsta titils í afar langri sögu félagsins.
Mynd: EPA
Oliver Glasner þjálfari Crystal Palace viðurkennir að hann hafi ekki verið nægilega ákafur í því að sannfæra stjórnendur félagsins um að kaupa inn nýja leikmenn síðasta sumar.

Palace vann afar óvænt enska bikarinn á síðustu leiktíð og missti Eberechi Eze til Arsenal. Félagið keypti Yeremy Pino í staðinn en styrkti sig ekki frekar, nema með kaupum á miðverðinum efnilega Jaydee Canvot.

Glasner vanmat leikjaálagið sem var framundan eftir að Palace komst í Sambandsdeildina með sigri sínum í enska bikarnum.

„Ég viðurkenni að ég vanmat leikjaálagið. Ég hef reynslu af því að þjálfa félagslið sem spila í Evrópu og hélt að það væri nóg, en mér skjátlaðist. Það er allt öðruvísi hérna, það eru fleiri leikir, fleiri keppnir, fleiri meiðsli og miklu meira leikjaálag. Það er ekki einu sinni jólafrí," sagði Glasner.

„Þetta var allt öðruvísi hjá Frankfurt og Wolfsburg. Þar fá leikmenn mikilvægt frí yfir jólatímann og mæta aftur til leiks með endurhlaðin batterí á nýju ári, bæði andlega og líkamlega. Hérna er þetta öfugt, þar sem leikjaálagið er sem verst í jólafríinu. Við höfum verið heppnir með meiðsli fram að þessu en núna er þetta orðið smá vandamál."

Daichi Kamada, Daniel Munoz, Cheick Doucouré, Chadi Riad, Chris Richards, Will Hughes og Eddie Nketiah eru meðal meiddra leikmanna félagsins og þá er Ismaila Sarr fjarverandi útaf Afríkukeppninni.

„Við vorum að vonast til að Chadi Riad eða Cheick Doucouré kæmu til baka úr meiðslum um jólatímann en það gekk ekki upp. Ástandið er erfitt útaf því að við erum án fimm eða sex leikmanna. Þetta er engum að kenna en ef ég horfi til baka þá hefðum við kannski átt að bæta einum eða tveimur auka leikmönnum við hópinn síðasta sumar.

„Ég átti að vera ákafari og harðari í að reyna að fá nokkra leikmenn inn til viðbótar. Núna þurfum við að dýfa okkur á leikmannamarkaðinn í janúarglugganum."


Palace keypti Brennan Johnson úr röðum Tottenham í gær fyrir metfé, 35 milljónir punda. Liðið heimsækir Newcastle á sunnudaginn í ensku úrvalsdeildinni.
Athugasemdir
banner
banner