Calum McFarlane var á hliðarlínunni hjá Chelsea þegar liðið heimsótti stórveldi Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Man City var sterkara liðið í fyrri hálfleik og náði forystunni. Chelsea fékk færi til að jafna metin í síðari hálfleik en tókst ekki og náðu heimamenn að róa leikinn niður.
Það var ekki fyrr en í uppbótartíma sem Chelsea náði að jafna metin þökk sé flottum spretti hjá Malo Gusto upp hægri vænginn, þar sem hann lék full auðveldlega á Nico O'Reilly áður en hann gaf boltann fyrir. Enzo Fernández endaði á að pota boltanum yfir netið af miklu harðfylgi.
„Fyrir mig persónulega er þetta stórkostleg stund, þetta er eitthvað sem mig hefur dreymt um. Að stýra Chelsea í úrvalsdeildarleik gegn Pep Guardiola er magnað," sagði McFarlane eftir lokaflautið.
„Ég er mjög stoltur af frammistöðunni og þá sérstaklega seinni hálfleiknum. Mér fannst við eiga skilið að skora þetta jöfnunarmark og ég er svo ánægður,"
McFarlane steig upp sem bráðabirgðaþjálfari Chelsea eftir brottför Enzo Maresca á nýársdag, en talið er að Liam Rosenior muni taka við þjálfarastarfinu næstu dögum.
„Við vildum vinna þennan leik en það tókst ekki og miðað við hvernig leikurinn spilaðist getum við sætt okkur við stig. Við skiluðum góðri frammistöðu gegn sterkum andstæðingum. Guardiola er einn af bestu þjálfurum í sögu fótboltans."
Chelsea er í fimmta sæti deildarinnar með 31 stig eftir 20 umferðir.
Athugasemdir



