Salah aftur til Roma - Bruno Fernandes á förum? - Sterling til West Ham - Goretzka í enskt stórlið?
banner
   fös 02. janúar 2026 18:00
Ívan Guðjón Baldursson
Harvey Elliott býðst að fara í MLS deildina
Mynd: EPA
Bandaríska MLS félagið Charlotte FC vill fá Harvey Elliott á láni frá Liverpool.

Elliott er á láni hjá Aston Villa en fær ekki spiltíma hjá liðinu. Það er kaupskylda í lánssamningnum sem virkjast ef Elliott spilar ákveðið marga leiki.

Villa vill ekki festa kaup á þessum sókndjarfa miðjumanni og því fær hann ekki að spila til að kaupskylduákvæðið virkist ekki.

Liverpool gæti því endurkallað Elliott og lánað hann erlendis, en leikmaðurinn má eingöngu spila í deild þar sem nýtt keppnistímabil er að hefjast útaf því að hann er með leiki að baki fyrir bæði Liverpool og Aston Villa á tímabilinu. Samkvæmt reglum FIFA má sami leikmaður ekki spila fyrir þrjú mismunandi félagslið á sömu leiktíð.

Ný leiktíð er að hefjast í MLS deildinni og í ýmsum deildum í Skandinavíu og Suður-Ameríku. Það eru valmöguleikarnir sem Elliott hefur vilji hann spila fótbolta næstu mánuði.

Elliott gæti því endað á láni hjá Charlotte í Bandaríkjunum þar sem hann fengi spiltímann sem hann þarf svo sárlega á að halda. Elliott er 22 ára gamall og á í heildina 149 keppnisleiki að baki fyrir stórveldi Liverpool.

Hann var algjör lykilmaður í yngri landsliðum Englands og þá sérstaklega í U21 þar sem hann skoraði 14 mörk í 28 leikjum og vann Evrópumótið 2023 og 2025.
Athugasemdir
banner
banner