Wharton til Real Madrid - Chelsea vill Vini - Sunderland horfir til Barcelona - Sterling að losna úr prísundinni?
   sun 04. janúar 2026 19:17
Ívan Guðjón Baldursson
Slot: Getum kennt sjálfum okkur um
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Arne Slot þjálfari Liverpool svaraði spurningum eftir dramatískt jafntefli á útivelli gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Staðan var 1-1 þegar komið var í uppbótartíma en þá náði Cody Gakpo forystunni fyrir Liverpool. Skömmu síðar jöfnuðu heimamenn svo lokatölur urðu 2-2.

„Ég hefði verið vonsvikinn ef leikurinn hefði endað 1-1 þannig þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig mér líður eftir þennan uppbótartíma. Það er ótrúlegt að ná forystunni í uppbótartíma og fá svo jöfnunarmark á sig. Við erum mjög vonsviknir," sagði Slot.

Varnartengiliðurinn Harrison Reed kom inn af bekknum í uppbótartíma til þess að setja ferska fótleggi á miðjuna og þétta hana. Marco Silva þjálfari bjóst ekki við að Reed myndi svo gera draumamark á 97. mínútu til að bjarga stigi. Reed skoraði með fullkomnu skoti utan vítateigs sem Alisson Becker átti aldrei möguleika á að verja.

„Þegar staðan var 1-1 gerðum við sóknarskiptingu með að setja (Federico) Chiesa inn á völlinn í tilraun til að vinna leikinn. Þegar við komumst í 2-1 fengu þeir innkast og við gerðum varnarskiptingu með Joe Gomez útaf því að hann er sterkur í loftinu. Þeir tóku innkastið svo stutt og skoruðu ótrúlegt mark. Þetta er svekkjandi út af því að þetta er ekki í fyrsta sinn sem við fáum mark á okkur á lokasekúndum leikja.

„Við vorum góðir í dag, þeir fengu varla færi í leiknum. Þeir skora úr fyrsta færinu sínu, eiga svo vippu sem fer í slána þegar Alisson kom af marklínunni og svo þetta ótrúlega mark. Við gáfum annars ekki færi á okkur og sköpuðum sjálfir nóg til að skora meira en tvö mörk.

„Allt tímabilið höfum við verið að spila jafna leiki sem ráðast alltof oft af heppni. Við verðum að gera betur, við megum ekki tapa stigum á lokasekúndum leikja. Við vorum betra liðið í dag en getum sjálfum okkur um kennt að hafa leyft þeim að jafna. Við áttum skilið að vinna þennan leik miðað við færin sem við sköpuðum."


Englandsmeistarar Liverpool eru í fjórða sæti deildarinnar með 34 stig eftir 20 umferðir.
Athugasemdir
banner
banner