Frábær endurkoma hjá Elye Wahi
Það fóru þrír leikir fram í efstu deild franska boltans í kvöld þar sem Hákon Arnar Haraldsson var á sínum stað í byrjunarliði Lille.
Lille tók á móti Rennes og missti Alexsandro af velli með beint rautt spjald snemma leiks. Tíu leikmenn Lille neyddust því til að verjast talsvert meira en þeir höfðu lagt upp með fyrir leik.
Staðan var markalaus eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik þar sem tíu leikmenn Lille vörðust vel og voru skeinuhættir í sóknaraðgerðum sínum.
Síðari hálfleikurinn hófst með tveimur mörkum frá Rennes og var engin leið til baka fyrir Hákon og félaga. Lille reyndi að minnka muninn og fékk flott færi en tókst ekki að setja boltann í netið svo lokatölur urðu 0-2. Hákon spilaði fyrstu 84 mínúturnar.
Lille er í fjórða sæti frönsku deildarinnar með 32 stig eftir 17 umferðir, tveimur stigum fyrir ofan Rennes. Lille var búið að vinna fjóra leiki í röð fyrir tapið í kvöld.
Fyrr í dag hafði Lyon betur í stórleik gegn AS Mónakó. Tékkneski miðjumaðurinn Pavel Sulc virðist óstöðvandi um þessar mundir og setti hann tvennu í sigrinum. Hann er þar með kominn með sex mörk í síðustu fjórum leikjum.
Argentínski bakvörðurinn Nicolás Tagliafico gaf tvær stoðsendingar í sigri Lyon og lagði Ainsley Maitland-Niles, fyrrum leikmaður Arsenal, eitt mark upp.
Folarin Balogun, annar fyrrum leikmaður Arsenal, lagði eina mark AS Mónakó upp.
Að lokum gerðu OGC Nice og Strasbourg 1-1 jafntefli. Þetta gæti hafa verið síðasti leikur Liam Rosenior á hliðarlínunni hjá Strasbourg þar sem hann virðist vera að taka við stjórn á Chelsea á næstu dögum.
Elye Wahi er kominn til Nice á láni frá Eintracht Frankfurt og tók það hann aðeins níu mínútur að skora við endurkomuna í franska boltann. Hann gerði jöfnunarmark Nice í síðari hálfleiknum eftir eins árs fjarveru úr Ligue 1.
Þar að auki fór einn leikur fram í gærkvöldi þegar Lens skoraði þrjú mörk til að leggja Toulouse að velli.
Lille 0 - 2 Rennes
0-1 Przemyslaw Frankowski ('49)
0-2 Quentin Merlin ('56)
Rautt spjald: Alexsandro ('13, Lille)
Mónakó 1 - 3 Lyon
0-1 Pavel Sulc ('38)
1-1 Mamadou Coulibaly ('45+4)
1-2 Pavel Sulc ('57)
1-3 Abner Vinicius ('79)
Nice 1 - 1 Strasbourg
0-1 Joaquin Panichelli ('13, víti)
1-1 Elye Wahi ('54)
Toulouse 0 - 3 Lens
0-1 Wesley Said ('57)
0-2 Adrien Thomasson ('85)
0-3 Ismaelo Ganiou ('95)
Athugasemdir




