Liam Rosenior þjálfari Strasbourg í Frakklandi er líklegasti arftaki Enzo Maresca hjá systurfélaginu Chelsea.
Rosenior hefur verið að gera flotta hluti með Strasbourg og fær líklega tækifæri við stjórnvölinn hjá einum af stærstu klúbbum Evrópu.
Rosenior er 41 árs gamall og lék meðal annars fyrir Fulham og Hull City á ferli sínum sem atvinnumaður í fótbolta. Hann ólst upp hjá Bristol City og lék 11 leiki fyrir U20 og U21 landslið Englands, án þess að taka stökkið upp í A-landsliðið.
Hann þjálfaði Hull City við góðan orðstír áður en hann tók við Strasbourg fyrir einu og hálfu ári síðan.
„Ég hef ekki hugmynd um hvað framtíðin ber í skauti sér," sagði Rosenior á fréttamannafundi fyrir leik Strasbourg gegn OGC Nice í frönsku deildinni á morgun.
„Ég er eingöngu einbeittur að liðinu og að vinna fótboltaleiki, ég er ekki að hugsa um neitt annað. Ef eitthvað annað gerist þá er það ekki í mínum höndum, ég einbeiti mér bara að fótboltahliðinni.
„Ég skoða ekki fjölmiðla. Eins og staðan er í dag þá er ég þjálfari Strasbourg og ég elska að vera hérna, ég elska þetta félag. Ég er einbeittur að því að vinna leikinn á morgun. Auðvitað veit ég að það eru einhverjir orðrómar á sveimi en ég og allir innan félagsins ættum að taka því sem hrósi. Við erum augljóslega að gera eitthvað rétt.
„Það er ekkert víst í lífinu, ég hugsa bara um að sinna minni vinnu. Ég vil ekki gefa nein loforð um hversu lengi ég verð hjá þessu félagi en ég get sagt ykkur það að ég nýt hvers einasta dags í Strasbourg."
Strasbourg er í sjöunda sæti frönsku deildarinnar sem stendur, með 23 stig eftir 16 umferðir. Níu stigum frá meistaradeildarsæti.
01.01.2026 12:51
Talinn langlíklegastur til að taka við Chelsea
Athugasemdir



