Liverpool blandar sér í baráttuna um Baleba - Tonali til Chelsea? - Real Madrid á eftir Rodri - Chelsea undirbýr risatilboð í Rogers
   lau 03. janúar 2026 22:30
Ívan Guðjón Baldursson
Afríkukeppnin: Dramatískur sigur tíu leikmanna Malí
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Malí 1 - 1 Túnis
0-1 Firas Chaouat ('88 )
1-1 Lassine Sinayoko ('96, víti)
Rautt spjald: Woyo Coulibaly, Mali ('26)

Það var ótrúleg dramatík þegar Malí og Túnis áttust við í 16-liða úrslitum Afríkukeppninnar fyrr í kvöld.

Það var voðalega lítið að frétta í afar bragðdaufum fyrri hálfleik en Woyo Coulibaly leikmaður Malí fékk að líta beint rautt spjald fyrir að traðka illa á andstæðingi sínum á 26. mínútu. Coulibaly leikur með Sassuolo í efstu deild á Ítalíu.

Leikurinn var áfram mjög jafn þó að Malí væri að spila einum leikmanni færri.

Tíu leikmenn Malí vörðust mjög vel en Túnis náði forystunni á 88. mínútu þegar Firas Chaouat skoraði með skalla eftir frábæran undirbúning frá Elias Saad, leikmanni Augsburg.

Malí, sem var varla búið að bregða sér í sókn eftir að hafa misst mann af velli í fyrri hálfleik, blés til sóknar eftir þetta og fékk dæmda vítaspyrnu seint í uppbótartíma þegar dæmt var á hendi innan vítateigs.

Lassine Sinayoko steig á vítapunktinn og skoraði framhjá Aymen Dahmen á milli stanga Túnis. Dahmen var í boltanum en tókst ekki að halda honum frá netinu.

Þá var gripið til framlengingar og ríkti jafnræði á vellinum. Túnis fann ekki leiðir framhjá þéttum varnarmúr Malí svo leikurinn fór alla leið í vítaspyrnukeppni.

Þar klúðraði Yves Bissouma, fyrirliði Malí og leikmaður Tottenham, vítaspyrnu áður en Ali Abde og Dorgeles Nene klúðruðu sínum spyrnum fyrir sitthvora þjóð.

Elias Achouri, samherji Viktors Bjarka Daðasonar hjá FC Kaupmannahöfn, klúðraði vítaspyrnu fyrir Túnis og var Mohamed Ben Romdhane, leikmaður Al-Ahly í Egyptalandi, skúrkurinn þegar hann steig síðastur á punktinn fyrir Túnis og brenndi af.

Mali vann því vítakeppnina 3-2 og mætir ógnarsterku liði Senegal í 8-liða úrslitum.
Athugasemdir
banner