Orri Steinn Óskarsson er búinn að vera fjarverandi vegna meiðsla undanfarna mánuði en er kominn aftur í leikmannahóp Real Sociedad í kvöld.
Sociedad spilar við stórveldi Atlético Madrid og þarf á stigum að halda í fallbaráttunni.
Orri Steinn er ekki byrjunarliðsmaður hjá Sociedad og var ekki að fá sérlega mikinn spiltíma fyrir meiðslin sín. Portúgalska stórveldið FC Porto hefur áhuga á að semja við framherjann efnilega.
Orri er 21 árs gamall og hefur Porto haft áhuga á honum lengi. Portúgalirnir vildu fá hann úr röðum FC Kaupmannahafnar, en Orri endaði hjá Sociedad fyrir metfé.
Samkvæmt fjölmiðlum ytra er Orri opinn fyrir því að fara til Porto á lánssamningi út tímabilið, en talið er að Sociedad vilji frekar halda honum innan sinna raða. Spænska liðið hefur verið í vandræðum með markaskorun og gæti nýtt sér krafta Orra.
Sociedad keypti Orra fyrir 20 milljónir evra en hann hefur aðeins komið við sögu í þremur leikjum á tímabilinu og skorað eitt mark.
Orri var keyptur sumarið 2024 og skoraði 7 mörk í 37 leikjum á síðustu leiktíð.
Athugasemdir




