Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 11. september 2019 15:14
Fótbolti.net
Af hverju fær Birkir ekki lengur landsliðstraustið?
Icelandair
Birkir Már hefur spilað 90 landsleiki.
Birkir Már hefur spilað 90 landsleiki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir tapið gegn Albaníu í gær fór sú umræða hátt af hverju Birkir Már Sævarsson kemst ekki lengur í landsliðshópinn. Þessi reyndi bakvörður hefur dottið út úr myndinni.

Þetta var meðal þess sem rætt var um í nýjasta Innkastinu sem gefið var út í dag.

Hjörtur Hermannsson hefur leyst hægri bakvörðinn vel en fékk mikla gagnrýni eftir tapið í gær og margir kölluðu eftir því að Birkir myndi vera valinn á ný.

„Hjörtur var settur í erfiða stöðu en hann er nálægt öllum mörkum Albana á einhvern hátt. Hann tapaði skallaboltanum í fyrsta markinu, var kominn of nálægt Kára í öðru markinu, í þriðja markinu hleypur hann manninum í skotið og í fjórða markinu spilaður út áður en fyrirgjöfin kemur," segir Magnús Már Einarsson í Innkastinu.

„Hjörtur er í raun ekki með neina samkeppni í hópnum þegar búið er að kasta Birki Má út fyrir hafsauga. Það sást í fyrri hálfleik að hann var í brasi en það var í raun ekki hægt að gera neina augljósa skiptingu. Þetta var erfiður leikur í gær, Birkir hefur spilað hátt í 100 landsleiki og hefði getað stöðvað blæðinguna að einhverju leyti."

Tómas Þór Þórðarson furðar sig líka á því að Birkir hafi ekki verið til taks, sérstaklega í ljósi þess að Hjörtur sé í raun miðvörður sem er látinn spila út úr stöðu.

„Hjörtur er ekki hægri bakvörður en hefur leyst þessa stöðu vel það sem af er. En það er enginn hægri bakvörður í 23 manna hópi og svo lendum við í því að sá sem spilar stöðuna er ekki að spila vel. Þá er enginn hægri bakvörður til að leysa af. Engin lausn í hálfleik sem hefði verið draumalausn," segir Tómas og Elvar Geir Magnússon talar um að Erik Hamren landsliðsþjálfari þekki Birki ekki eins vel og íslenskir fótboltaáhugamenn.

„Birkir er að tapa á því að við erum með erlendan landsliðsþjálfara sem hefur ekki séð Birki eins og við höfum séð hann til lengri tíma. Sem leikmann sem gerir nánast ekki mistök. Er ótrúlega áreiðanlegur og stígur upp á sviðið sem þarf. Hamren hefur ekki kynnst honum eins og við sem höfum fylgst náið með honum til lengri tíma," segir Elvar.

„Ef við ætlum að halda áfram að treysta Hannesi, af hverju fær Birkir ekki landsliðstraustið fyrir sína 90 landsleiki?" spyr Tómas í Innkastinu.
Innkastið - Leitað að blóraböggli
Athugasemdir
banner
banner
banner