Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
banner
   mið 04. október 2006 09:00
Magnús Már Einarsson
Íslenskur slúðurpakki
Atli Jóhannsson (til vinstri) er orðaður við mörg félög og Arnar Gunnlaugsson (til hægri) er einnig í umræðunni í slúðurpakkanum.
Atli Jóhannsson (til vinstri) er orðaður við mörg félög og Arnar Gunnlaugsson (til hægri) er einnig í umræðunni í slúðurpakkanum.
Mynd: Fótbolti.net - Anton Ari Einarsson
Óskar Örn Hauksson er orðaður við nokkur félög.
Óskar Örn Hauksson er orðaður við nokkur félög.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH, KR og Keflavík hafa áhuga á Guðjóni Baldvinssyni samkvæmt slúðurpakkanum.
FH, KR og Keflavík hafa áhuga á Guðjóni Baldvinssyni samkvæmt slúðurpakkanum.
Mynd: Rögnvaldur Már Helgason
Igor Pesic gæti verið á leið til Keflvíkinga.
Igor Pesic gæti verið á leið til Keflvíkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Páll Einarsson gæti lagt skóna á hilluna.
Páll Einarsson gæti lagt skóna á hilluna.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Þór Veruson
Ómar Hákonarson gæti farið í Breiðablik eða Víking.
Ómar Hákonarson gæti farið í Breiðablik eða Víking.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Viðar Björnsson er orðaður við Fylki.
Atli Viðar Björnsson er orðaður við Fylki.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Eins og undanfarin ár ætlum við hér á Fótbolta.net að taka saman og birta nokkrum sinnum í vetur heitasta slúðrið af félagaskiptamarkaðnum hér á landi en ljóst er að margir leikmenn munu skipta um lið og mörg lið eru að leita sér að nýjum leikmönnum til að styrkja hópa sína fyrir komandi leiktíð.

Hér að neðan er það helsta sem heyrist á götunni í dag en það ber að ítreka það að allt eru þetta sögusagnir og allt eins víst að ekkert sé til í þessu þó sjálfsagt séu einhver sannleikskorn. Slúðurpakkinn er einungis til að hafa gaman af og ef menn hafa ábendingar varðandi pakkann eða um slúður hafið þá samband á [email protected]. Á morgun mun koma annar pakki þar sem að einblínt er á neðri deildirnar.


FH:
Íslandsmeistararnir eru sagðir vilja fá Atla Jóhannsson leikmann ÍBV og þá hefur orðrómur komist á kreik um að Kristján Ómar Björnsson miðjumaður Hauka gæti gengið til liðs við félagið. Guðjón Baldvinsson framherji Stjörnunnar er einnig á óskalista FH-inga en þeirra aðalmarkmið er að fá Atla frá Eyjum. Þá eru FH-ingar einnig að skoða leikmenn á Norðurlöndunum en svo gæti farið að Dennis Siim og Tommy Nielsen verði einu erlendu leikmennirnir sem verða áfram hjá félaginu. Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir hafa einnig verið orðaðir við FH. Ekki er vitað hvað Sverrir Garðarsson gerir en líklegt er að hann fari frá Fimleikafélaginu.

KR:
Sölvi Davíðsson, Sölvi Sturluson og Gunnar Einarsson eru allir farnir frá KR eins og við höfum greint frá og óvíst er með Mario Cizmek sem er samingslaus. Ágúst Gylfason sem er einnig samningslaus mun hins vegar að öllum líkindum gera nýjan samning við KR. KR-ingar ætla að fá skapandi miðjumann og þeir eru meðal annars taldir vera á eftir Óskari Erni Haukssyni leikmanni Grindvíkinga. KR-ingar vilja halda Guðmundi Péturssyni sem kom á láni frá ÍR í sumar og þá eru menn í Vesturbænum einnig að skoða Atla Jóhannsson og Guðjón Baldvinsson. Einnig hefur heyrst að KR-ingar vilji fá Sinisa Kekic frá Þrótti og þá hefur félagið áhuga á Hannesi Þór Halldórssyni markverði Stjörnunnar sem er einnig eftirsóttur af fleiri liðum í Landsbankadeildinni.

Valur:
Valsarar ætla að halda flesta sína menn en óvíst er með Þorvald Makan Sigurbjörnsson og Árna Inga Pjetursson. Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir hafa verið orðaðir við Hlíðarendaliðið sem og Hafþór Ægir Vilhjálmsson. Atli Jóhannsson er einnig orðaður við Val eins og fleiri lið og þá hafa Hlíðarendapiltar ennþá áhuga á að fá Grétar Sigfinn Sigurðsson frá Víkingi sem var í láni hjá þeim í fyrra. Nái þeir ekki að landa honum gætu þeir reynt að fá Tryggva Svein Bjarnason frá KR. Albert Brynjar Ingason gæti einnig komið frá Fylki.

Keflavík:
Bikarmeistararnir ætla sér stóra hluti og gætu fengið fjóra til sex nýja leikmenn. Miðjumaðurinn Igor Pesic kemur líklega frá ÍA en hann er að verða samningslaus og þá hafa Keflvíkingar mikinn áhuga á Guðjóni Baldvinssyni framherja Stjörnunnar. Óvíst er með Baldur Sigurðsson sem sló í gegn hjá Keflavík í sumar en mörg lið af Norðurlöndunum hafa verið að skoða hann. Orri Hjaltalín, Óðinn Árnason og Jóhann Þórhallsson hjá Grindavík eru allir undir smásjá Keflvíkinga en þeir léku einmitt á sínum tíma undir stjórn Kristjáns Guðmundssonar hjá Þór. Keflvíkingar ætla sér stóra hluti og ætla að fá fjóra til sex nýja leikmenn en þeir eru meðal annars að skoða erlendis. Stefán Örn Arnarson er hins vegar á förum frá félaginu og hafa Víkingur, Stjarnan og Þróttur verið nefnd í því sambandi. Hermann Aðalgeirsson og Albert Brynjar Ingason gætu komið frá Fylki. Meira slúður úr Bítlabænum segir síðan að Keflvíkingar hafi áhuga á Helga Erni Gylfasyni leikmanni ÍR og Sölva Davíðssyni og Sölva Sturlusyni sem eru að fara frá KR.

Breiðablik:
Svo gæti farið að Stig Krohn Haaland verði eini erlendi leikmaðurinn sem verður áfram í herbúðum Blika og að Srdjan Gasic, Nenad Zivanovic og Petr Podzemsky yfirgefi því félagið. Ólafur Kristjánsson þjálfari Blika gæti fengið þrjá leikmenn frá Danmörku þar sem hann þekkir vel til. Jóhann Þórhallsson framherji Grindvíkinga gæti einnig komið og fengið það hlutverk að fylla skarðið sem Marel Baldvinsson skyldi eftir sig þegar hann fór til Molde í sumar. Sóknarmaðurinn Ellert Hreinsson gæti yfirgefið Blika þar sem hann er eftirsóttur af liðum í fyrstu deild en einnig hefur heyrst að Kópavogsliðið ætli að reyna að fá Ómar Hákonarson frá Fjölni og Þorvald Makan Sigurbjörnsson frá Val. Sölvi Sturluson og Sölvi Davíðsson gætu einnig komið í Kópavoginn og þá hefur liðið einnig áhuga á Atla Jóhannssyni.

ÍA:
Margir ungu leikmannanna gætu fengið lykilhlutverk á Skaganum en nokkuð ljóst er að tvíburabræðurnir Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir yfirgefi liðið og svo gæti einnig farið með Hafþór Ægi Vilhjálmsson sem gæti farið í atvinnumennsku auk þess sem mörg félög hér á landi vilja hann. Auk þess gæti verið að Pálmi Haraldsson leggi skóna á hilluna eins og komið hefur fram. Reynir Leósson er líklegur til að koma heim frá Trelleborg í Svíþjóð og ganga til liðs við ÍA. Víkingarnir, Grétar Sigfinnur Sigurðsson og Viktor Bjarki Arnarson og Eyjólfur Héðinsson leikmaður Fylkis eru á meðal þeirra leikmanna sem Skagamenn eru taldir hafa áhuga á.

Víkingur Reykjavík:
Víkingar munu eiga erfitt með að halda í Grétar Sigfinn Sigurðsson og Viktor Bjarka Arnarson sem eru eftirsóttir. Tryggvi Sveinn Bjarnason varnarmaður KR, Bo Henriksen sem er á förum frá ÍBV og Ómar Hákonarson úr Fjölni eru á meðal þeirra nafna sem taldir eru vekja áhuga Víkinga. Leiknismennirnir Einar Örn Einarsson og Pétur Örn Svansson eru einnig nefndir sem og Óskar Örn Hauksson og Paul McShane frá Grindavík auk þess sem Stefán Örn Arnarson gæti komið aftur í Víkina frá Keflavík. Víkingar hafa einnig áhuga á Atla Jóhannssyni leikmanni ÍBV og félaga hans Andra Ólafssyni. Einar Guðnason, Halldór Jón Sigurðsson, Haukur Úlfarsson og varamarkvörðurinn Magnús Þór Magnússon eru hins vegar allir taldir vera að hugsa sér til hreyfings.

Fylkir:
Páll Einarsson sem skoraði grimmt í sumar gæti lagt skóna á hilluna og þá er óvíst hvort hinir efnilegu Ragnar Sigurðsson og Eyjólfur Héðinsson verði áfram hjá Fylki. Einnig er óvíst hvað Haukur Ingi Guðnason og Albert Brynjar Ingason gera og þá ku Guðni Rúnar Helgason vera að hugsa sér til hreyfings. Einar Örn Einarsson, Pétur Örn Svansson og Valur Gunnarsson leikmenn Leiknis eru orðaðir við Fylki og þá er Árbæjarliðið að leita fyrir sér erlendis, þá helst á Norðurlöndunum. Ef Guðmundur Mete gerir ekki nýjan samning við Keflavík hafa Fylkismenn mikinn hug á að fá hann og þá er mögulegt að Daníel Hjaltason fari í Árbæinn frá Víkingi. Atli Viðar Björnsson og Baldur Bett hjá FH eru undir smásjá Fylkismanna en þeir eru samingslausir og þá hefur heyrst að Árbæjarliðið ætli sér að vera með í baráttunni um Óskar Örn Hauksson og Atla Jóhannsson. Þrír efnilegir strákar fra ÍR, Arnaldur Smári Stefánsson, Helgi Örn Gylfason og Kristján Ari Halldórsson eru einnig undir smásjánni hjá Fylki.

Fram:
Framarar ætla sér stóra hluti og hefur heyrst að efnaður maður úr viðskiptalífinu komi þar að með mikið fjármagn. Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir gætu komið til Fram og annar Skagamaður, Hafþór Ægir Vilhjálmsson er einnig á óskalista Safamýrarliðsins. Tryggvi Sveinn Bjarnason varnarmaður KR, Eyjólfur Héðinsson og Sævar Þór Gíslason frá Fylki og Atli Jóhannsson eru á meðal þeirra nafna sem einnig hafa heyrst í umræðunni. Arnaldur Smári Stefánsson efnilegur strákur úr ÍR er einnig eftirsóttur af Frömurum. Gamla kempan Arnljótur Davíðsson fer væntanlega til ÍR. Þá getur verið að Framarar reyni að fá markmann og hefur Hannes Þór Halldórsson úr Stjörnunni verið nefndur í því sambandi en heyrst hefur að ekki sé öruggt hvort að Gunnar Sigurðsson muni standa á milli stanganna hjá Safamýraliðinu næsta sumar.

HK:
HK ætla sér að halda öllum mannskapnum sem kom liðinu upp í Landsbankadeildina. Óvíst hversu miklu verður bætt við en þó hefur heyrst að Albert Ingason framherji Fylkis gæti komið og þá hafa menn í Kópavogi áhuga á að fá varnarmanninn Árna Thor Guðmundsson aftur frá ÍA auk þess sem að Helgi Kolviðsson gæti komið aftur til HK eftir margra ára dvöl í atvinnumennsku. Þá hafa menn hjá HK áhuga á Helga Erni Gylfasyni, Kristján Ara Halldórssyni og Arnaldi Smári Stefánssyni hjá ÍR. Mögulegt er að Sigurður Sæberg Þorsteinsson leggi skóna á hilluna.
Athugasemdir
banner