fim 02. febrúar 2023 22:11
Elvar Geir Magnússon
Býst við að missa fyrirliða sinn - „Svona er þessi hringrás“
Júlíus Magnússon, fyrirliði Víkings.
Júlíus Magnússon, fyrirliði Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Já ég býst alveg við því," segir Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, þegar hann er spurður að því hvort hann búist við því að missa fyrirliða sinn, Júlíus Magnússon.

Það er áhugi á Júlíusi frá Noregi og búist við því að hann fari aftur erlendis.

„Það er kominn einhver áhugi, meira en einhverjar kjaftasögur. Ef hann tekur þá ákvörðun (að fara út) þá styð ég það heilshugar í því."

„Mér finnst vænt um þessa stráka sem hafa komið heim og við höfum hjálpað. Margir hafa farið frá okkur aftur og hann verður þá bara næsti maður sem fer út. Þá finnum við annan í staðinn, eða annar kemur inn sem er þegar til staðar í félaginu."

„Þannig er þessi hringrás. Þetta eru ekki bara við, Breiðablik er líka að lenda í þessu. Það kemur maður í manns stað og áfram gakk."

Júlíus er einn allra besti miðjumaður Bestu deildarinnar og hægara sagt en gert fyrir Víkinga að fylla skarðið ef hann fer.

„Það er engin spurning um það. Það voru líka stór skörð þegar Sölvi og Kári hættu, við seldum Atla Barkar og Kristal eða þegar lykilmenn meiddust. Svona er bara fótboltinn. Það er ekkert væl og skæl," segir Arnar.
Arnar Gunnlaugs: Það lélegt að ég hef gríðarlegar áhyggjur
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner