Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   lau 02. júlí 2022 21:49
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sendi inn umsókn fyrir KF Nörd í flippi - Auglýsir eftir gallanum
Logi Ólafsson og Ásmundur Haraldsson, þjálfarar KF Nörd.
Logi Ólafsson og Ásmundur Haraldsson, þjálfarar KF Nörd.
Mynd: Fótbolti.net - Andri Janusson
Ási er í dag aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins.
Ási er í dag aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þáttaröðin KF Nörd var sýnd á Stöð 2 árið 2006 og naut mikilla vinsælda. Þættirnir gengu sem sagt út á það að 16 menn sem vissu ekkert um fótbolta og kunnu ekki að spila leikinn komu saman og mynduðu fótboltalið.

Í gegnum þáttaröðina voru þeir þjálfaðir í fótbolta og lokaþættinum kepptu þeir svo við Íslandsmeistarana á þeim tíma, FH.

Þjálfari liðsins var Logi Ólafsson, en aðstoðarþjálfari var Ásmundur Haraldsson sem er núna aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins. Ásmundur settist niður með fréttaritara Fótbolta.net í gær og fór um víðan völl. Hann talaði meðal annars um KF Nörd ævintýrið og hvernig hann datt inn í það.

„Sjónvarpsstjóri Sýnar á þeim tíma var Hilmar Björnsson, sem er núna íþróttastjóri á RÚV. Hann spilaði með mér í KR. Þessi auglýsing datt inn og það var eitthvað netfang til að sækja um. Ég sendi inn umsókn sem leikmaður í einhverju flippi. Ég vissi að hann (Hilmar) tæki við þessu. Hann hringdi í mig fimm mínútum seinna og spurði hvort ég hefði áhuga á því að taka þátt í umsóknarferlinu, prufunum fyrir þáttakendur. Ég sá um fótboltaæfingar inn í íþróttahúsi Melaskóla þar sem þeir komu inn umsækjendurnir og ég setti þá í gegnum einhverjar drillur,” sagði Ási.

„Það var verið að útiloka þá sem kunnu of mikið þannig að við fengum ekki of góða fótboltamenn inn í þetta batterí. Svo í kjölfarið var mér boðið að vera aðstoðarþjálfari með Loga í þessari frábæru séríu.”

Ási fær reglulega send myndbrot úr þáttunum. „Það er verið að endursýna hana eitthvað heima held ég. Ég fæ reglulega snöpp frá félögunum mínum þar sem þeir senda mér frábær brot úr þessum þáttum.”

„Þetta var ótrúlega skemmtilegt. Það voru frábærir gæjar í þessu og fólkið sem var að vinna í kringum þetta… þetta var gaman, virkilega gaman.”

Ási segist ekkert hafa þekkt Loga fyrir þættina. „Ekkert af neinu ráði. Ég var ekki leikmaður hjá honum eða neitt slíkt. Við kynnumst þarna og erum ágætis félagar í dag.”

Hann segir að leikmennirnir sem voru í liðinu haldi enn sambandi í dag. „Þeir eru flestir vinir mínir á Facebook. Ég held að þeir haldi sambandi þessir gæjar, en við fylgjumst allavega að á Facebook. Svo hittir maður þá á förnum vegi og það er alltaf gaman að hitta þá aftur.”

„Ég ætla að fá að nota tækifærið. Ég lánaði einhverjum KF Nörd æfingagallann minn. Ég veit ekki hverjum ég lánaði hann, ég ætla að nota tækifærið og auglýsa eftir honum. Það er einhver sem er með hann, endilega skilið honum til mín. Ég sakna gallans. Það var einhver sem fékk hann lánaðan fyrir grímuball eða eitthvað. Ég man bara ekki hver það var.”

Þú sem ert með gallann, vinsamlegast skilaðu honum. Hægt er að hlusta á allan þáttinn hér fyrir neðan.


Saga aðstoðarþjálfarans - Frá KF Nörd á Evrópumótið í Englandi
Athugasemdir
banner