Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   mið 02. desember 2020 18:57
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Noregur: Jói náði í stig gegn meisturunum
Lilleström tveimur stigum frá sæti í efstu deild
Jóhannes Harðarson, þjálfari Start.
Jóhannes Harðarson, þjálfari Start.
Mynd: IK Start
Fimm leikjum er lokið í norsku Eliteserien í dag. Lokaleikur dagsins hefst klukkan 19:00 þegar Stabæk tekur á móti Valerenga. Bæði Matthías Vilhjálmsson og Viðar Örn Kjartansson eru í byrjunarliði Valerenga.

Álasund, sem er þegar fallið niður í B-deild, tapaði gegn Sandefjord, 0-1 á heimavelli. Davíð Kristján Ólafsson lék allan leikinn hjá Álasund og það gerðu þeir Emil Pálsson og Viðar Ari Jónsson einnig fyrir Sandefjord. Sandefjord er með 31 stig, sjö stigum fyrir ofan fallsvæðið.

Start gerði jafntefli við Noregsmeistarana í Bodö/Glimt. Alfons Sampsted var í byrjunarliði Bodö og lék fyrstu 58 mínúturnar. Guðmundur Andri Tryggvason var ekki í leikmannahópi Start sem er þjálfað af Jóhannesi Harðarsyni. Start er í 13. sæti, tveimur stigum fyrir ofan Stromsgodset sem er í umspilssætinu um fall.

Viking van 2-0 heimasigur á Brann og Axel Óskar Andrésson lék allan leikinn í hjarta varnarinnar í liði Viking. Samúel Kári Friðjónsson var ónotaður varamaður hjá Viking og Jón Guðni Fjóluson ekki í leikmannahópi Brann. Viking er í 7. sæti með 42 stig og Brann í 10. sæti eins og er með 31 stig.

Þá gerðu Haugasund og Mjöndalen 1-1 jafntefli í leik þar sem Haugasund jafnaði á 88. mínútu. Dagur Dan Þórhallsson var ekki í leikmannahópi Mjöndalen sem er í fallsæti, þremur stigum frá Stromsgodset. Eini leikurinn þar sem Íslendingar voru ekki á mála hjá öðru hvoru félaginu var viðureign Sarpsborg og Kristansund sem lauk með 1-1 jafntefli.

Í norsku B-deildinni vann Lilleström 2-0 heimasigur á KFUM Oslo. Lilleström er með sigrinum tveimur stigum frá því að tryggja sér sæti í efstu deild. Tvær umferðir eru eftir í B-deildinni en þrjár í efstu deild.

Tryggvi Hrafn Haraldsson var í byrjunarliði Lilleström og lék fyrstu 77 mínúturnar. Björn Bergmann Sigurðarson byrjaði á bekknum en kom inn á þegar Tryggvi fór af velli.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner