Janúartilboð frá Liverpool í Kerkez og Zubimendi - Forest vill Ferguson - Man Utd hefur áhuga á Raum og Yildiz
   fim 03. febrúar 2022 21:23
Elvar Geir Magnússon
Atlantic Cup: Blikar byrja á sigri í Portúgal
Byrjunarlið Breiðabliks í kvöld.
Byrjunarlið Breiðabliks í kvöld.
Mynd: blikar.is
Anton Ari átti mikilvægar vörslur í lokin.
Anton Ari átti mikilvægar vörslur í lokin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik 2 - 1 Brentford B
1-0 Damir Muminovic ('30)
2-0 Kristinn Steindórsson ('65)
2-1 Tristan Crama ('77)

Breiðablik tekur þátt í Atlantic æfingamótinu á Algarve í Portúgal og mætti varaliði enska úrvalsdeildarfélagsins Brentford núna í kvöld. Enska liðið stillti upp ungu liði með meðalaldur upp á 19,5 ár.

Brentford skapaði vandræði fyrir Blika í upphafi leiks en svo tók Kópavogsliðið völdin og fékk góð færi áður en leiðin í markið fannst. Meðal annars átti Gísli Eyjólfsson stangarskot.

Damir Muminovic skoraði svo eftir hornspyrnu á 30. mínútu leiksins. Höskuldur Gunnlaugsson átti fyrirgjöf sem rataði á Damir sem tók boltann í fyrsta og spyrnti honum smekklega í markið.

Verðskulduð 1-0 forysta Breiðabliks í hálfleiknum.

Kristinn Steindórsson tvöfaldaði svo forystu Blika með glæsilegu gæðamarki. Viktor Karl EInarsson kom boltanum á Kristinn í teignum sem sýndi frábæra tækni þegar hann kom boltanum framhjá varnarmanni og kláraði svo með þéttingsföstu skoti.

Frakkinn Tristan Crama minnkaði muninn af stuttu færi eftir hornspyrnu. Blikar vildu fá dæmt brot í teignum í aðdragandanum en markið stóð.

Þegar rúmar fimm mínútur voru eftir kom varnarmaðurinn Mikkel Qvist inn af bekknum í sínum fyrsta leik í Breiðabliksbúningnum. Á sama tíma mætti Venesúelamaðurinn Juan Perez inná.

Lokakafli leiksins hjá Breiðabliki var ekki sérstakur og í blálokin komst Brentford nálægt því að jafna nokkrum sinnum. En Anton Ari Einarsson markvörður var í ham, varði nokkrum sinnum virkilega vel og sá til þess að Blikar unnu tæpan 2-1 sigur.

Byrjunarlið Breiðabliks: Anton Ari Einarsson (m); Höskuldur Gunnlaugsson (f), Damir Muminovic, Viktor Örn Margeirsson, Davíð Ingvarsson, Ísak Snær Þorvaldsson, Viktor Karl Einarsson, Dagur Dan Þórhallsson, Gísli Eyjólfsson, Anton Logi Lúðvíksson, Kristinn Steindórsson.

Hvað næst hjá Blikum?
Liðið mætir Midtjylland á sunnudag 6. febrúar en liðið tapaði 1-0 fyrir Zenit á mótinu í dag. Blikar leika svo gegn FC Kaupmannahöfn þann 11. febrúar. Leikirnir eru í beinni á Stöð 2 Sport.
Athugasemdir
banner
banner